Bandaríkjadalur hefur veikst eilítið á mörkuðum í morgun, en fjárfestar virðast vera að sýna varkárni áður en einn helsti talsmaður hóflegra stýrivaxtaaðgerða í stjórn bandaríska seðlabankans, Lael Brainard, heldur ræðu klukkan 16:15 á íslenskum tíma.

Sú ræða sem mest er horft til

„Það eru margir fjárfestar sem vænta þess að seðlabankinn muni gefa út skilaboð til markaðsins,“ í gegnum Brainard, sagði Takuya Kanda, aðalgreinandi hjá rannsóknarstofnuninni Gaiteme.com.

Ræðan verður eflaust sú sem mest verður horft til af öllum stjórnarmönnum í bandaríska seðlabankanum, fyrir utan stjórnarformanninn Janet Yellen.

Stýrivaxtaákvörðun 21. september

Hún mun ræða horfur í efnahagsmálum og peningastefnu á ráðstefnu í Chicago um alþjóðleg málefni. Eru sumir sem fylgjast vel með á mörkuðum með væntingar um að hún muni hugsanlega taka dýpra í árina um nauðsyn stýrivaxtahækkana.

Það myndi aftur auka líkur á að seðlabankinn muni hækka stýrivexti á stefnumótunarfundi sínum sem verður 20.-21. september næstkomandi.

Aukin neysla og almennur vöxtur

„Þetta gæti verið mikilvægt tækifæri seðlabankans til að hækka væntingar markaðarins og gefa peningastefnunefndinni aukinn sveigjanleika þegar að ákvörðun hennar kemur,“ segir aðahagfræðingur Deutsche Bank, Peter Hooper.

„Það er nefnilega hægt að færa fram góð rök fyrir að hækka stýrivexti fyrr en seinna vegna þess að:

  1. Meiri aukning hefur verið í nýjum störfum heldur en bankinn vænti
  2. almenn merki um aukna neyslu og almennan hagvöxt
  3. frekar hagstæðar aðstæður á fjármálamörkuðum“

Rökin styrkjast

Stýrivaxtahækkun í september myndi vera í samræmi við orð í ræðu stjórnarformannsins í síðasta mánuði:

„Í ljósi áframhaldandi styrkingar vinnumarkaðarins, og útlit á hagþróun og verðbólgu, þá trúi ég því að rök fyrir hækkun stýrivaxta hafi styrkst á síðustu mánuðum,“ sagði Yellen.

Hooper telur líkur á að stýrivextir hækki þann 21. september vera 50%, en sumir hagfræðingar trúa því að líkurnar séu hærri. Almenna viðhorfið er samt sem áður að þeir muni ekki verða hækkaðir við næstu stýrivaxtaákvörðun.