Gengi krónunnar lækkaði í dag um 1,65% í líflegum viðskiptum. Gengi krónunnar sveiflaðist á bilinu 112,20 til 114,20. Ástæðu gengislækkunarinnar má aðallega rekja til væntanlegra gjaldeyriskaupa Seðlabankans. Ákveðið hefur verið að greiða niður erlend skammtímalán ríkissjóðs umfram það sem áður var ákveðið. Fjármálaráðuneytið hefur því óskað eftir því við Seðlabankann að kaupa 100 milljónir USD í maí.

Dagana 12., 17., 19., 23 og 25. maí mun Seðlabankinn leita tilboða hjá viðskiptavökum fyrir opnun markaða í 20 milljónir USD. Í tilkynningu segir að ekki séu áform um frekari gjaldeyriskaup á árinu vegna lánahreyfinga ríkissjóðs.

Hagstofan hefur ákveðið að breyta útreikningi á vísitölu neysluverðs og mun verðbólga lækka í kjölfarið. Breytingi hafði líka áhrif til lækkunar gengis krónunnar þar sem líklegra er að Seðlabankinn þurfi ekki að hækka stýrivexti sína jafn mikið og áður var talið.
Vaxtaákvörðun er í Bandaríkjunum í kvöld, en gert er ráð fyrir 25 punkta hækkun stýrivaxta og þeir fari úr 2,75% í 3,00%
Gengisvísitalan byrjaði í 112,20 og endaði í 114,05. Viðskipti á millibankamarkaði með gjaldeyri voru 8,5 milljarðar ISK.

EURUSD 1,2890
USDJPY 105,15
GBPUSD 1,8910
USDISK 64,20
EURISK 82,70
GBPISK 121,40
JPYISK 0,6100
Brent olía $48,90
Nasdaq 0,25%
S&P -0,10%
Dow Jones 0,05%

Byggt á upplýsingum frá Íslandsbanka.