*

laugardagur, 20. júlí 2019
Innlent 9. september 2018 17:02

Dómar í innherjaupplýsingamálum

Dómar hafa fallið í tveimur stórum innherjaupplýsingamálum á síðustu árum, gegn Icelandair 2014 og Eimskipum 2017.

Júlíus Þór Halldórsson
Fjármálaeftirlitið sektaði Icelandair 2014 og Eimskip 2017 fyrir að birta ekki innherjaupplýsingar tímanlega.
vb.is

Eins og fram kom í umfjöllun Viðskiptablaðsins í gær hefur meðhöndlun og birting innherjaupplýsinga verið sérstakt áherslumál Fjármálaeftirlitsins síðastliðin ár. Tvö stór slík mál hafa komið upp þar sem lagðar hafa verið á tugir milljóna í sektir. Bæði hafa fóru fyrir dómstóla, og í báðum tilvikum staðfesti hérðasdómur úrskurð eftirlitsins. Í annað málið á þó enn eftir að fást endanleg niðurstaða fyrir Landsrétti.

Flugvélakaup Icelandair
Þann 19. mars árið 2014 ákvað Fjármálaeftirlitið að sekta Icelandair Group um 10 milljónir vegna brota gegn 122. grein laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.

Forsaga málsins var sú að í tilkynningu Icelandair í lok október 2012 kom fram að verið væri að vinna að langtímaáætlun varðandi flugvélakost þess, og að innan tíðar yrði tekin ákvörðun um hvort félagið myndi eingöngu nota Boeing 757 vélar til ársins 2022, eða nota einnig smærri vélar. Þann 23. nóvember sama ár voru síðan tilboð tveggja félaga borin undir stjórn félagsins, og 6. desember skrifuðu Icelandair og Boeing svo undir viljayfirlýsingu um kaup á 12 flugvélum. Samningurinn var efnislega sá sami og borinn hafði verið undir stjórn í nóvember og í stjórnarfundargerð 3. desember var vísað í samningsdrög við félögin.

Fjármálaeftirlitið taldi því að á stjórnarfundinum 3. desember hefði verið tekin ákvörðun „um að færa samningaviðræðurnar á lokastig og að skýr vilji hafi legið fyrir að kaupa 12 flugvélar. Telja verði að upplýsingarnar sem mynduðust þann dag hafi verið upplýsingar sem fjárfestar myndu líta til við ákvörðun um fjárfestingu í félaginu.“

Um hafi verið að ræða upplýsingar um afstöðu stjórnar félagsins, fjölda flugvéla, mögulegar tegundir véla og áhrif viðskiptanna á rekstur félagsins til framtíðar, sem teljist innherjaupplýsingar að mati eftirlitsins.

„Við höfum verið að leggja mjög mikla áherslu á þetta atriði, þennan misskilning sem hefur verið hjá sumum útgefendum, að líta svo á að þeir geti beðið með að birta innherjaupplýsingar þangað til þær eru orðnar endanlegar. Bara það að viðræður komist á ákveðið stig, þannig að það séu raunhæfar horfur á að það verði af viðkomandi atburði, jafnvel þó það sé ekki endanleg vissa fyrir því, það eitt og sér geta talist innherjaupplýsingar.“ segir Páll Friðriksson, framkvæmdastjóri markaða og verðbréfaviðskipta hjá Fjármálaeftirlitinu.

Icelandair kærði niðurstöðuna til héraðsdóms, en dómurinn staðfesti túlkun eftirlitsins.

Uppgjör Eimskipa
Þann 8. mars 2017 tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um að leggja 50 milljóna króna sekt á Eimskipafélag Íslands vegna brots gegn sömu lagagrein.

Brotið fólst, samkvæmt eftirlitinu, í að Eimskip birti ekki innherjaupplýsingar, sem lágu fyrir þann 20. maí 2016, um mikið bætta rekstrarafkomu félagsins á fyrsta ársfjórðungi 2016, eins fljótt og auðið var og á jafnræðisgrundvelli, eða frestaði birtingu þeirra.

Vinna við gerð árshlutareiknings fyrir fyrsta ársfjórðung 2016 hófst um miðjan maí og fyrstu drög lágu fyrir 20. maí, en þau sýndu „mikið bætta rekstrarafkomu“. Meðal annars jókst EBITDA um 67% milli ára og hagnaður um 21%. Drögin voru síðan samþykkt á stjórnarfundi 26. maí og þá fyrst var regluvörður félagsins upplýstur um innihald uppgjörsins. Sama dag var svo árshlutareikningurinn birtur, ásamt afkomutilkynningu, og í kjölfarið hækkuðu bréf félagsins um tæp 13%.

„Það er mjög mikilvægt að ferlar innan útgefenda séu með þeim hætti að regluvörður fái þær upplýsingar sem hann þarf til að hann geti metið hvort um innherjaupplýsingar sé að ræða,“ segir Páll.

Eimskip kærði einnig niðurstöðuna til héraðsdóms, sem einnig staðfesti túlkun eftirlitsins, en henni hefur nú verið áfrýjað til Landsréttar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.