„Við metum stöðuna svo að við þurfum þessa viðbóta núna,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra. Á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun var samþykkt að dómarar við héraðsdóm verði áfram 43 í stað 38. Dómurunum var fjölgað eftir efnahasghrunið í október árið 2008 en þá fjölgaði dómsmálum mikið. Að óbreyttu hefði dómurum fækkað aftur um næstu áramót. Heimildin um fjölda dómara gildir í eitt ár í senn.

Hanna Birna segir í samtali við VB.is. enn talin þörf á að hafa svo marga héraðsdómara til að tryggja góðan málsmeðferðarhraða fyrir dómstólum og að gert sé ráð fyrir því í fjárlögum.

Hún segir málið verða skoðað að ári.

„Ég þori ekki alveg að fullyrða að staðan verði orðin þannig að þá hægt verði að hafa 38 héraðsdómara. Það verður að koma í ljós," segir hún.

Frumvarpið fer næst fyrir þingflokka og vonar Hanna Birna að hún geti lagt það fyrir á Alþingi sem allra fyrst.