Skúli Magnússon, formaður Dómarafélags Íslands, greinir frá því í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag að Dómarafélag Íslands hafi sent inn kvörtun til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands og Fjölmiðlanefndar vegna óvandaðs fréttaflutnings Fréttablaðsins.

Árétting en ekki leiðrétting

Fréttaflutningurinn sem um ræðir varðar umfjöllun Fréttablaðsins á launahækkunum dómara. Í frétt Fréttablaðsins sagði orðrétt að laun dómara hefðu hækkað um 38% í fyrra. Skúli segir að ritstjórn blaðsins hafi samdægurs viðurkennt að umrædd fyrirsögn hefði falið í sér mistök og lofað að birta leiðréttingu í blaðinu næsta dag. Það var ekki gert en mánudaginn sl. var birt árétting þar sem sagði að prósentutalan hefði að meginstefnu vísað til hækkunar lífeyris fyrrverandi dómara eða maka þeirra sem taka laun skv. svonefndri eftirmannsreglu LSR. Skúli segir að ritstjórn blaðsins hafi ekki orðið við því að birta á síðum blaðsins stutta grein þar sem málið væri skýrt og gerð athugasemd við fréttaflutning blaðsins.

Skúli segir að umræddur úrskurður kjararáðs hafi falið í sér heildarendurskoðun á launakjörum dómara, en því hafi verið lofað frá árinu 2012. Með úrskurðinum voru ýmsar greiðslur sem greiddar höfðu verið frá ári til árs færðar inn í grunnlaun dómara, m.a. í samræmi við alþjóðleg viðmið um kjör dómara og sjálfstæði þeirra. Úrskurðurinn kom til viðbótar 9,3% almennri launahækkun kjararáðs í nóvember, en úrskurðurinn sjálfur fól í sér 8% hækkun heildarlauna.

Hækkuðu hlutfallslega minna

Skúli bendir á einnig á að laun dómara höfðu hækkað hlutfallslega minna heldur en annarra sem heyrðu undir kjararáð. Dómarar séu þó meðal hærra launuðu embættismanna ríkisins, en njóta einnig þeirrar sérstöðu að sjálfstæða þeirra í starfi er grundvallaratriði í gangvirki réttarríkisins.

„Auðvitað má deila um hvað þetta fólk eigi að hafa í laun og það er ekki nema eðlilegt að fjölmiðlar fjalli um laun dómara eins og önnur mál, jafnvel með gagnrýnum hætti. Þá lágmarkskröfu verður hins vegar að gera til fjölmiðla að rétt sé með farið, einkum eftir að ítrekað hefur verið leitast við að leiðrétta missagnir fyrir ritstjórn og blaðamönnum. Þessari kröfu hefur ekki verið fullnægt í umfjöllun Fréttablaðsins.

Dómarar eiga af ýmsum ástæðum erfitt með að svara fyrir sig í opinberri umræðu og eru berskjaldaðir fyrir ómálefnalegri umfjöllun fjölmiðla. Það veldur því einnig vonbrigðum þegar einn stærsti fjölmiðill landsins fjallar ítrekað um kjör dómara án þess að nokkurn tímann sé leitað eftir skýringum eða viðbrögðum úr andstæðri átt.“