Boð héraðsdómara, um að bæta lögmanni tjón vegna ferðakostnaðar hans, varð til þess að nefnd um dómarastörf taldi ekki efni til þess að aðhafast vegna kvörtun um starfshætti hans. Dómarinn hafði fellt niður þinghald í málinu en annar lögmanna hafði ferðast landshluta á milli til að mæta í það.

Í áliti nefndarinnar hefur verið afmáð hvaða dómstóll það er sem um ræðir og hvaða lögmaður. Aftur á móti má af atvikum ráða að lögmaðurinn hefur ekki starfsstöð í sömu þinghá og dómstóllinn starfar.

Þann 22. mars síðastliðinn stóð til að hafa fyrirtöku vegna málflutnings um frávísunarkröfu í téðu máli og hafði verið ákveðið að hún skildi fara fram í persónu. Lögmaðurinn hafði af þeim sökum bókað flugfar, komið sér á staðinn og mætt í dómsal á réttum tíma. Þegar hann var mættur kom hins vegar í ljós að gagnaðili hans og dómari málsins voru á allt öðrum stað. Fyrirspurn í afgreiðslu dómstólsins leiddi í ljós að dómari málsins hafði afboðað þinghaldið með því að „hringja í lögmenn“.

Sló inn vitlaust netfang

Þetta kom lögmanninum spánskt fyrir sjónir enda hafði hann hvorki fengið tölvupóst, símtal né SMS um að fyrirtökunni hefði verið frestað og ekki heldur boðun í nýtt þinghald. Þá hafði beiðni hans um að málflutningurinn færi fram í gegnum fjarfundabúnað áður verið hafnað af dómaranum. Fór hann fram á það að málflutningur færi fram en slíkt var ekki gerlegt, eðli málsins samkvæmt, enda slíkt erfitt ef sá sem á að skakka leikinn er fjarri góðu gamni.

Sökum erindisleysunnar sendi lögmaðurinn kvörtun til nefndar um dómarastörf þar sem hann taldi að dómari málsins hefði gert á hans hlut með framkomu sinni. Í athugasemdum dómarans vegna kvörtunarinnar sagði að á föstudeginum fyrir fyrirtökuna, það er 19. mars, hefði hann tekið sótt og legið veikur yfir helgina. Árla sunnudags hefði legið ljóst fyrir að hann yrði ekki rólfær á mánudeginum og því hefði hann sent tölvupóst á aðila til að fresta fyrirtökunni.

Þann tölvupóst sendi hann úr snjalltæki á heimili sínu og fékk svar um hæl frá hinum lögmanni málsins. Ekkert svar barst aftur á móti frá þeim sem lagði í fýluferð landshorna á milli. Ástæðan fyrir því var sú að handvömm dómarans varð til þess að hann sló inn óvirkt netfang, sem lögmaðurinn hafði áður brúkað, þegar hann sendi póstinn.

Dómarar mega sjálfir bjóðast til að bæta tjón

Þegar dómarinn áttaði sig á mistökunum hafði hann strax samband við lögmanninn, baðst afsökunar á framferði sínu og bauðst til þess að bæta honum tjón vegna ferðakostnaðar úr eigin vasa. Aftur á móti andmælti hann því sem röngu að ekki hefði staðið til boða að þinga í gegnum fjarfundabúnað. Slíkt væri beinlínis rangt.

Eftir að boðið um bætur úr hendi dómarans til lögmannsins lá fyrir kannaði nefndin hug lögmannsins til kvörtunarinnar, það er hvort hann hygðist halda henni til streitu. Lögmaðurinn staðfesti að dómarinn hefði boðið honum bætur vegna ferðakostnaðar og vinnutaps þann daginn. Það hefði þó ekki breytt afstöðu hans til kvörtunarinnar. Taldi hann lög um dómstóla standa því í vegi að unnt væri að krefja dómara persónulega um skaðabætur en ef nefndin teldi það heimilt myndi hann gefa út reikning vegna þessa.

„Samkvæmt [dómstólalögum] ber ríkið bótaábyrgð vegna tjóns sem dómari veldur í starfi. Það er ekki á valdi nefndar um dómarastörf að ákveða annað en þar greinir. Ákvæðið verður þó ekki skilið svo að dómara sé óheimilt að bjóða persónulega bætur vegna eigin mistaka kjósi hann að gera svo,“ segir í niðurstöðu nefndarinnar.

Hvað ágreiningum um að aðeins öðrum lögmanni dómsmálsins hafi boðist að flytja málið með fjarfundabúnaði en fýlufaranum ekki þá stóð þar orð gegn orði að mati nefndarinnar og því ekki unnt að taka afstöðu til þess.