„Þá er það mat dómsins að ljóst sé að upplýsingarnar voru líklegar til að hafa áhrif á verð hlutabréfa í bankanum yrðu þær opinberar og vísast um það sem rakið var að framan um þetta. Er því sannað með öllu ofanrituðu, gegn neitun ákærða, að upplýsingarnar sem hér um ræðir voru innherjaupplýsingar, sbr. 1. mgr. 120. gr. laga nr. 108/2007.“

Þetta segir í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í morgun í máli ákæruvaldsins gegn Baldri Guðlaugssyni, fyrrverandi ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins. Baldur var þá dæmdur í tveggja ára óskilorðsbundið fangelsi fyrir innherjasvik í opinberu starfi, er hann seldi hlutabréf sín í Landsbankanum 17. og 18. september 2008, tæplega þremur vikum áður en Landsbankinn féll.

Baldur sat á þessum tíma í samráðshópi stjórnvalda um fjármálastöðugleika, ásamt sérfræðingum úr efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, forsætisráðuneytinu, Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands.

Í dómnum kemur enn fremur fram að brot Baldurs teljist vera stórfelld. Orðrétt segir í niðurlagi dómsins: „Ákærði hefur ekki áður gerst brotlegur við lög. Brot ákærða eru stórfelld og brotaandlag hátt. Með broti sínu misnotaði ákærði stöðu sína sem opinber starfsmaður eins og lýst er í 138. gr. almennra hegningarlaga en þar segir að er þannig stendur á skuli viðkomandi sæta þeirri refsingu sem við broti liggur, en þó svo aukinni að bætt sé við hana allt að helmingi hennar. Að öllu þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákvörðuð fangelsi í 2 ár.“