Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Gunnars Andersen, fyrrverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins, má segja að dómari blási á allar málsvarnir Gunnars og meðákærða, Þórarins Más Þorbjörnssonar, fyrrverandi starfsmanns Landsbankans.

Eins og áður hefur komið fram voru málavextir þeir að Þórarinn aflaði, að beiðni Gunnars, upplýsinga um bankaviðskipti Bogmannsins ehf, sem var í eigu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, alþingismanns. Þórarinn kom þessum upplýsingum til Ársæls Valfells, sem aftur skilaði þeim til DV sem byggði á þeim frétt um félagið og Guðlaug.

Gunnar hélt því fram fyrir dómi að í málinu hafi hann ekki verið að aðhafast sem forstjóri FME, heldur leitað til Þórarins af persónulegum ástæðum. Því gæti ekki verið um brot í opinberu starfi að ræða. Í dómnum er hins vegar tekið fram að í athugasemdum með almennum hegningarlögum sé tekið fram að þagnarskylda sem hvílir á opinberum starfsmanni tekur til allra leyndarmála, er varða embætti hans eða sýslan, án tillits til þess hvort starfsmaðurinn hefur fengið vitneskju um þau í starfi sínu eða ekki. „Skal starfsmaður gæta leyndarmála í sambandi við starfið, hvernig sem hann hefur komist að þeim. Ákærði var forstjóri Fjármálaeftirlitsins er hann aflaði þeirra upplýsinga sem um ræðir frá eftirlitsskyldum aðila og hlutaðist til um að þeim yrði komið til fjölmiðla. Verður ekki fallist á það með ákærða að hann hafi ekki verið bundinn þagnarskyldu um upplýsingarnar samkvæmt þeim lagaákvæðum sem í ákæru greinir,“ segir í dómnum.

Skýringin sögð ótrúverðug

Að sama skapi var ekki fallist á það að Þórarinn hafi ekki, sem starfsmaður nýja Landsbankans, ekki verið bundinn þagnarskyldu um atvik sem vörðuðu starfsemi gamla bankans, enda liggi fyrir að nýi bankinn hafi tekið við eignum þess gamla, þar með töldum þeim gagnagrunni sem upplýsinga var aflað úr.

Ekki var fallist á þau rök Gunnars að sýkna ætti hann á þeim grunni að almannahagsmunir hafi réttlætt að þagnarskyldu hans yrði vikið til hliðar, en hann hafi grunað að refsiverð háttsemi hafi átt sér stað með viðskiptum Landsbankans og Bogmannsins. Í dómnum segir að slíkur grunur geti hins vegar ekki réttlætt það að hann kæmi trúnaðarupplýsingum um þau á framfæri við fjölmiðil.

Þórarinn krafðist svo sýknu þar sem hann hafi haldið að rannsókn á málinu væri að hefjast innan FME og að hann væri því að afla upplýsinga vegna hennar. Í dómnum er bent á að hann fór ekki að innri reglum Landsbankans um samskipti við yfirvöld og þá hafi upplýsingaöflunin ekki tengst starfi hans í bankanum. Gunnar hafi svo sjálfur sagt fyrir dómi að hann hefði greint Þórarni frá því að upplýsingaöflunin tengdist fjölmiðlaumfjöllun um Gunnar. Að lokum er bent á að Þórarinn hafi afhent þriðja manni upplýsingarnar sem hann vissi að hefði engin starfstengsl við FME. Var þessi skýring því sögð ótrúverðug.

Eins og áður hefur komið fram var Gunnar dæmdur til greiðslu tveggja milljóna króna sektar en sæta ella 44 daga fangelsisrefsingar og Þórarinn var dæmdur til greiðslu einnar milljónar króna en sæta ella 40 daga fangelsisrefsingar. Þeir greiða sjálfir málsvarnarlaun sín, sem í tilviki Gunnars námu 2,3 milljónum króna og 590.000 krónum í tilviki Þórarins.