*

föstudagur, 14. maí 2021
Innlent 18. apríl 2021 13:51

Dómari og vörn kynnu að eiga hagsmuni

Bæði ríkislögmaður og dómarar heyrðu áður undir kjararáð og mögulega gæti niðurstaða í bótamáli vegna ráðsins haft áhrif á þá.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Drífi málið framkvæmdastjóra fjölmiðlanefndar gegn ríkinu í aðalmeðferð verður áhugavert að sjá hver mun taka til varna og hvort setudómari muni kveða upp dóm í því en bæði ríkislögmaður og dómendur heyrðu undir valdsvið kjararáðs á árum áður. Í málinu er krafist viðurkenningar á bótaskyldu ríkisins vegna málsmeðferðar ráðsins.

Í fundargerðum ráðsins er til að mynda getið um fundi þess bæði með Einari Karli Hallvarðssyni ríkislögmanni og fulltrúum Dómarafélags Íslands skömmu áður en Alþingi gaf út dánarvottorð þess. Mögulegt er því að hlutaðeigandi kunni að hafa einhverja hagsmuni af lyktum málsins. Falli dómur í málinu er enn fremur óljóst hvaða áhrif, ef einhver, það kann að hafa á núverandi launakerfi forstöðumanna umfram það sem þegar hefur komið fram í áliti umboðsmanns Alþingis.

Síðasta ákvörðun sem ráðið tók vegna launa framkvæmdastjóra fjölmiðlanefndar er frá árinu 2012. Síðan þá hafa launin aðeins tekið breytingum í samræmi við almennar ákvarðanir ráðsins. Fjölda annarra starfa hefur samtímis verið skipað ofar í launatöflu ráðsins, sumum þeirra oftar en einu sinni. Í ofanálag bætist að samkvæmt fyrstu ákvörðun KMR lækkuðu launin fyrir starfið. Blaðið hefur ekki upplýsingar um nákvæma lækkun þar sem eldri skjöl á vef kjararáðs eru ekki lengur aðgengileg. Lækkunin felur í sér frystingu, það er framkvæmdastjórinn heldur launum samkvæmt ákvörðun ráðsins árið 2012 en hækkar ekki samtímis öðrum forstöðumönnum.

Af fundargerð stjórnar Félags forstöðumanna ríkisstofnana frá 2. september 2020 má ráða að félagsmaður hafi óskað eftir styrk frá félaginu vegna reksturs stjórnsýslumáls og mögulegs skaðabótamáls vegna málsmeðferðar. Sá hafi fundað með stjórn félagsins síðasta sumar og í kjölfarið leitað til lögmanns „sem komst að því að í máli forstöðumannsins væri haldbær málsgrundvöllur til að krefja ráðherra um greiðslu skaðabótaskylds tjóns sem hann varð fyrir vegna málsmeðferðar kjararáðs á sínum tíma“. Samþykkt var að félagið myndi veita styrk sem nemur allt að tíu klukkustunda vinnu lögmanns fyrir stjórnvöldum og allt að einni milljón ef til dómsmáls kemur.

Í samtali við Viðskiptablaðið staðfesti Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar, að hún væri umræddur forstöðumaður í máli því sem hér hefur verið rakið. Enn fremur staðfesti hún að umrætt dómsmál væri til viðurkenningar á bótaskyldu. Að öðru leyti vildi hún ekki tjá sig um grundvöll málsins eða rekstur þess.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér