Dómari í Genf í Sviss hefur komist að þeirri niðurstöðu að starfsmenn kaffihúss og tveggja veitingastaða sem fundu yfir 95 þúsund evrur, um 13 milljónir króna, megi eiga féð. Peningunum hafði verið sturtað niður í salerni staðanna að því er Bloomberg greinir frá.

Málið hófst 11. maí 2017 þegar starfsmenn útibús UBS í miðbæ Genf komust að því að um 40 þúsund evrum í rifnum seðlum hafði stíflað salerni í bankanum. Öryggismyndavélar sýndu þrjár konur og karlmann fara fjölmargar ferðir frá bankahvelfingu útibúsins á salernin.

Seinna sama dag voru 8.500 evrur veiddar upp úr salerni í bakarís í sömu byggingu. Um kvöldið fundust 26 þúsund evrur við þrif á salerni á kaffihúsi í nágrenninu. Mánuði síðar fundu starfsmenn pítsastaðar skammt frá 60 þúsund evrur í seðlum sem að hluta til höfðu verið skemmdir.

Saksóknari gerði fjármunina upptæka á meðan rannsókn málsins stóð. Rannsókninni er nú lokið og ekki þykir ástæða til að gefa út ákæru. Þeir sem fundið hafa féð geta því nú óskað eftir því formlega við yfirvöld.