Landsréttur staðfesti nýverið úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að héraðsdómarinn Lárentsínus Kristjánsson myndi ekki víkja sæti í riftunarmáli þrotabús Wow air gegn ALC og Skúla Mogensen. Varnaraðilar málsins töldu að svo mikill vinskapur væri milli Sveins Andra Sveinssonar, annars skiptastjóra þrotabúsins, og dómarans að hann gæti ekki farið með málið.

Í málinu er þess krafist af hálfu þrotabúsins að rift verði tveimur greiðslum frá Wow til ALC, sem leigði vélar til Wow, sem áttu sér stað 21. mars 2019 og 27. mars 2019. Riftunarkrafan nemur samtals 900 þúsund dollurum. Þetta er ekki eina riftunarmálið sem hefur verið höfðað en þau eru alls sex talsins.

Í héraði benti ALC á að téður Lárentsínus og skiptastjórinn Sveinn Andri væru trúnaðarvinir og hefðu verið það um nokkurra áratuga skeið. Því hafi það komið lögmanni félagsins á óvart að Lárentsínus hefði fengið málinu úthlutað. Vinasamband þeirra sé á allra vitorði. Þeir hafi verið samtíða í lagadeild, tekið þátt í háskólapólitík saman og um skeið rekið saman lögmannsstofu. Því væru fyrir hendi ástæður til að draga hlutlægni dómarans í efa.

Skiptastjórinn þrætti ekki fyrir vinatengslin. Hann benti á að skiptastjórarnir væru tveir talsins og hann væri aðeins annar þeirra. Ákvarðanir um búið væru teknar í sameiningu. Þótt skiptastjórar teldust opinberir sýslumenn þá verði þeir ekki samsamaðir með búinu sjálfu. Alþekkt að dómarar þurfi að víkja vegna tengsla við aðila en það gildi ekki um tengsl við lögmenn.

„Á hinn bóginn verður ekki fallist á að þessi sé raunin og að skiptastjóri þrotabús hafi sjálfkrafa einhverja augljósa og aðkallandi hagsmuni af því sjálfur þótt hann reki mál í nafni búsins. Verður ekki betur séð en að þar sé staða lögmannsins mjög keimlík ef ekki sú sama og þegar lögmaður rekur mál endranær, þ.e. fyrir viðskiptavin. Lögmaðurinn hefur sjálfur, undir hefðbundnum kringumstæðum, ekki aðra hagsmuni af niðurstöðu máls en að fá umsamda þóknun fyrir verkið og vonandi ánægðan viðskiptavin, eða eins og hér um ræðir eftir atvikum, ánægða kröfuhafa,“ sagði Lárentsínus í úrskurði sínum þar sem hann hafnaði því að víkja sæti.

Úrskurðurinn sætti kæru til Landsréttar. Landsréttur sagði að það lægi fyrir að tengsl væru milli lögmannsins og dómarans. Rétt væri að það væri vanhæfisástæða ef dómari hefði tengsl við aðila eða fyrirsvarsmann en hið sama gilti ekki ef um lögmann aðila væri að ræða.

„Sveinn Andri Sveinsson er sem fyrr greinir annar tveggja skiptastjóra varnaraðilans þrotabús WOWair hf. og starfar sem slíkur í umboði kröfuhafa, meðal annars til að freista þess að ná fram hagsbótum fyrir kröfuhafana með rekstri dómsmála. Skiptastjóri fer með fyrirsvar þrotabús [en hann] telst aftur á móti opinber sýslunarmaður meðan hann gegnir starfanum […] og hefur að öllu jöfnu engra persónulegra hagsmuna að gæta vegna skiptanna nema þeirra sem tengjast þóknun hans fyrir starfann. Við mat á hæfi dómara verður stöðu skiptastjóra samkvæmt framangreindu ekki jafnað til stöðu aðila máls eða fyrirsvarsmanns annars konar aðila en þrotabús,“ segir í úrskurði Landsréttar.

Kröfu um að Lárentsínus myndi víkja sæti var því hafnað. Kærumálskostnaður var felldur niður.