Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað kröfu Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. um að verða skráður eigandi allra hluta í Insolidum ehf, félags í eigu Daggar Pálsdóttur varaþingmanns og sonar hennar. Í dómnum er talið að ekki sé hægt með beinni aðfarargerð að gera slíka breytingar á hlutaskrá. Dómnum verður áfrýjað til Hæstaréttar, samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins.

Aðdraganda málsins má rekja til þess að Insolidum keypti í júlí á síðasta ári stofnfjárbréf í Spron fyrir um 560 milljónir og með láni frá Saga Capital. Lánið var tryggt með veði í bréfunum sjálfum og öðrum eignum  Insolidum.

Gengi hlutabréfa í Spron lækkuðu talsvert eftir að fyrirtækið var skráð í Kauphöll Íslands á haustdögum. Saga Capital fór því fram á frekari tryggingar í ljósi þess að verðmæti stofnfjárbréfanna í Spron hafði lækkað. Í kjölfarið fóru fram viðræður milli aðila um mögulegar tryggingar. Insolidum komst í því ferli að þeirri niðurstöðu að Saga Capital hefði leynt upplýsingum um verðmæti bréfanna. Á þeim forsendum bæri að rifta samningum. Þeim málatilbúnaði hefur Saga Capital vísað á bug.

Seinna krafðist Saga Capital þess að hlutaskrá Insolidum yrði breytt þannig að bankinn yrði skráður eigandi allra hluta í félaginu og að honum yrði fengin umráð hlutaskrárinnar. Kröfuna byggði hann á handveðssamningum og yfirlýsingu eigenda Insolidum, frá því um sumarið, um breytingu á hlutaskránni kæmi til þess að bankinn þyrfti að ganga að tryggingum sínum.

Dómurinn komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að samkvæmt lögum væri ekki hægt að ganga að slíkum tryggingum. Hafnaði hann því kröfu Saga Capital.