Dominique Strauss-Kahn hefur verið ákærður fyrir nauðgunartilraun, kynferðisbrot og frelsissviptingu í kjölfar rannsóknar lögreglunnar í New York. Þetta kemur fram á vef FT.

Strauss-Kahn verður leiddur fyrir dómara í dag. Verjandi Strauss-Kahn, Benjamin Brafman, sagði að skjólstæðingur sinn myndi lýsa sig saklausan af öllum ákæruatriðum.

Strauss-Kahn, Dominique
Strauss-Kahn, Dominique
© Aðrir ljósmyndarar (VB MYND)

Strauss-Kahn hefur verið orðaður við forsetaframboð í Frakklandi á næsta ári en hann meðlimur í Sósíalistaflokknum og var iðnaðarráðherra Frakklands árin 1991-1993 og efnahags-, fjármála- og iðnaðarráðherra 1997-1999. Strauss-Kahn var skipaður forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins árið 2007.

Lögreglan hefur tekið skýrslu af herbergisþernunni á Sofitel hótelinu þar sem Strauss-Kahn dvaldi í gær.  Hún segir að hann hefði meðal annars neytt hana til að hafa við sig munnmök.

Samkvæmt lögum New York ríkis er kynferðisbrot að neyða manneskju til munnmaka og viðurlögin eru allt að 20 ára fangelsi sem eru sömu viðurlög og fyrir nauðgunartilraun.