Breska félagið Domino‘s Pizza Group (DPG), sérleyfishafi Domino‘s á Íslandi hefur fært niður virði rekstursins hér á landi um um 14,5 milljónir punda, um 2,6 milljarða króna, samkvæmt uppgjöri sem félagið birti í morgun. Reksturinn á Íslandi er til sölu og er niðurfærslan sögð endurspegla markaðsaðstæður þar sem mögulegur kaupendahópur sé takmarkaður og langtímahorfur í rekstri hafi versnað.

Nú er rekstur Domino‘s á Íslandi metinn á um 20 milljónir punda er samsvarar um 3,6 milljörðum króna. Breska félagið keypti Domino‘s á Íslandi fyrir ríflega 8 milljarða króna árin 2016 og 2017. Því má gera ráð fyrir að mikið tap verði af eignarhaldi DPG á Domino‘s á Íslandi.

DPG á í viðræðum við nokkra aðila um kaup á Domino's á Íslandi. Þar á meðal fjárfestahóp sem Birgir Bieltvedt og Skeljungur standa að en meðal annarra áhugsamra er fjárfestahópur Þórarins Ævarssonar, stofnanda Spaðans og fyrrverandi forstjóra Domino‘s á Íslandi, og fjárfestingafélagið Alfa Framtak.

Í ársreikningi DPG segir að rekstrartekjur Domino's á Íslandi hafi lækkað úr 36,6 milljónum punda í 29,2 milljónir punda og EBIT rekstrarhagnaður úr 1,7 milljónum punda í um 600 þúsund pund. Heimsfaraldurinn og aukin samkeppni hafi neikvæð áhrif á reksturinn. Dregið hafi úr eftirspurn, sér í lagi vegna fækkun ferðamanna sem hafi haft í för með sér 3% samdrátt sé horft á samanburðarhæfa liði milli ára.

Þá færði DPG einnig niður verðmæti Domino‘s í Svíþjóð um 8,1 milljón pund, um 1,4 milljaðra króna. Eyja fjárfestingafélag sem hjónin Birgir Bieltvedt og Eygló Björk Kjartansdóttir eiga, er að ganga frá kaupum á Domino's í Svíþjóð líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í gær . Birgir leiddi fjárfestahóp á síðasta ári sem keypti meirihluta í Domino's í Noregi af DPG.