Menntaverðlaun atvinnulífsins voru veitt á dögunum þeim fyrirtækjum sem þóttu skara fram úr í fræðslu- og menntamálum. Íslandshótel er Menntafyrirtæki ársins og Domino's Menntasproti ársins. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra afhentu verðlaunin á Menntadegi atvinnulífsins. Þetta kemur fram í frétt SA .

„Íslandshótel eru menntafyrirtæki atvinnulífsins árið 2021 en fyrirtækið rekur hótelkeðju sem í eru 17 hótel um land allt með tæplega 1.800 herbergjum. Endurspeglar uppbygging félagsins mikinn vöxt ferða­þjónust­unnar síðastliðinn áratug, en um leið þær fjölmörgu áskoranir sem slíkum vexti fylgja í mannauðs­málum, sem leggur grunnin að gæðum þjónustunnar og ánægðum viðskiptavinum. Félagið hefur á markvissan hátt tengt saman uppbyggingu á fræðslu og þjálfun starfsfólksins við heildarstefnumótun sína, sem tryggir að allt starfsfólk þess fær staðlaða, markvissa og stefnumiðaða fræðslu,“ segir í frétt SA.

Dominos menntasproti atvinnulífsins 2021

Dominos hlaut menntasprota atvinnulífsins árið 2021. „Félagið rekur stærstu veitingakeðju landsins með tuttugu og þrjá staði um land allt þar sem starfa um 650 starfsmenn, þar sem meðalaldurinn er 22 ár. Það felur í sér margar áskoranir þegar kemur að uppbyggingu fræðslu, utanumhalds árangurs og að skapa hvata hjá starfsfólki til að sækja sér þekkingu sem nýtist í starfi og skapa framtíðar veganesti.

Dominos hefur lagt áherslu á að þróa rafræna fræðslu sem styður við þjálfun á vinnustaðnum sjálfum en er einnig með innbyggða hvata til starfsþróunar innan fyrirtækisins. Til að virkja nýju fræðsluaðferðirnar voru nýttar leiðir sem unga fólkið þekkir úr heimi veraldarvefsins og leikjafræðinnar sem leiddu til þess að mjög góður árangur náðist í þátttöku og virkni starfsfólksins. Með þessu var tekið stökk fram á við í fræðslu­málum fyrirtækisins sem leitt hefur til mjög góðrar stöðu í starfsmanamálum og staðfestist í mjög góðri niðurstöðu í svo nefndum púlsmælingum meðal starfsfólksins,“ segir í frétt SA.