*

fimmtudagur, 27. febrúar 2020
Innlent 5. mars 2019 12:21

Domino´s Pizza gjaldþrota í Danmörku

Ekki er hægt að panta lengur flatbökur hjá Domino´s keðjunni í Danmörku. Ítrekaðar athugasemdir heilbrigðisyfirvalda.

Ritstjórn

Þegar hringt er í pöntunarsíma Domino´s keðjunnar í Danmörku, til að panta pizzu eða flatböku á hinu ástkæra ylhýra, þá kemur nú símsvari sem segir að það sé ekki lengur hægt því keðjan sé orðin gjaldþrota. Jafnframt er heimasíða Domino´s í Danmörku ekki lengur opin, að því er þarlendir fjölmiðlar greina frá. 

Samkvæmt síðasta ársreikningi félagsins, sem birtur var fyrir ári síðan, höfðu tekjur félagsins aukist um 26% á milli ára, og stefndi félagið þá að því að opna 8 veitingastaði til viðbótar á ári, þangað til þeir næðu markmiðinu um 100 veitingastaði.

Félagið lenti í töluverðum skráveifum á síðasta ári, endurtekin inngrip heilbrigðiseftirlitsins, og var til að mynda sjö veitingastöðum Domino´s í Danmörku lokað vegna þannig vandamála í nóvember síðastliðnum.

Höfðu bæði danska Extra Bladet og sjónvarpsþátturinn Operation X á TV2 birt fjölda umfjallana um slæma umhirðu matar og almennan sóðaskap, og jafnvel voru fréttir um rottugang og ruglingslegar dagsetningar á matvælum. Voru athugasemdir gerðar við 22 staði keðjunnar á árinu, sérstaklega vegna vandamála við dagsetningar.

Breska Domino´s keðjan, sem keypti Pizza-Pizza ehf. íslensku Domino´s keðjuna, og á Domino´s í Svíþjóð og Noregi er ekki tengd dönsku keðjunni.

Stikkorð: Danmörk pizza Domino´s flatbökur