Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt yfirtöku Domino´s á tveimur veitingastöðum Pizzunnar, sem þó verður áfram rekin á fimm stöðum. Hefur félagið Pizza-pizza ehf. sem rekur Domino´s, keypt staði rekstrarfélagsins G.Arnfjörð, sem rekur Pizzuna, að Ánanaustum og í Gnoðavogi.

Áfram verða fimm staðir reknir undir merkjum Pizzunnar, en Domino´s tekur yfir leigusamning og búnað á þessum tveimur stöðum, en tekur ekki til sín starfsmenn eða annan hluta reksturs. Telur eftirlitið að samkeppnisleg áhrif samrunans séu óveruleg.

„Þá telja samrunaaðilar að samruninn verði ekki til þess að raska samkeppni á markaði að öðru leyti með umtalsverðum hætti. Rétt sé að líta til þess að mikil samkeppni ríki á umræddum markaði og litlar aðgangshindranir séu til staðar fyrir nýja aðila. Þá beri einnig að líta til þess að framboðsstaðganga sé mikil,“ segir í ákvörðuninni .