Vegna mikilla anna og aukningar í sölu síðustu misseri sér Domino's fram á að ráða allt að 80 nýja starfsmenn á næstu vikum. Ekki er um að ræða þörf vegna nýrra verslana heldur vegna aukinnar sölu í núverandi verslunum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Domino's.

„Það hefur verið gríðarlega góður gangur hjá okkur upp á síðkastið. Við viljum þjónusta viðskiptavini sem best og á stundum hefur það reynst okkur erfitt síðustu vikur. Því sækjum við liðsauka til viðbótar við okkar einstaka hóp starfsmanna," segir Magnús Hafliðason, forstjóri Domino's á Íslandi.

Fyrst og fremst er um að ræða hlutastörf og er vinnutíminn einna helst um kvöld og helgar. Um er að ræða fjölbreytt störf, jafnt við afgreiðslu og framleiðslu en einnig útkeyrslu. Domino's rekur 23 verslanir og því ættu flestir að geta fundið svæði sem þeim hentar að starfa á út frá búsetu en hjá félaginu starfa ríflega 600 einstaklingar. Domino's leggur áherslu á að bjóða starfsfólki upp á öfluga þjálfun og fræðslu og mikil tækifæri eru til starfsþróunar innan fyrirtækisins en stór hluti stjórnenda fyrirtækisins eru starfsmenn sem hafa vaxið í starfi frá því að vera almennir starfsmenn í verslunum.

Fyrirtækið var valið Menntasproti ársins árið 2020 og er m.a. þátttakandi í Fagnámi Verslunar og þjónustu í samstarfi við Verslunarskóla Íslands, Samtök verslunar og þjónustu og fleiri.

„Við hvetjum þá einstaklinga sem eru tilbúnir að vinna í hröðu og lifandi umhverfi til þess að sækja um. Það er oft hasar hjá okkur yfir annatíma og er um að ræða hörku vinnu sem oft fylgir talsvert álag. Við bjóðum lifandi umhverfi, samkeppnishæf laun, öflugt fræðslustarf, mikil tækifæri til þess að vaxa í starfi og gott félagslíf. Ekki skemmir svo fyrir að fá starfsmannaafslátt af pizzum.

Menningin hjá okkur einstök og mikill metnaður í að þjónusta viðskiptavini og tryggja landsmönnum sína uppáhalds pizzu þegar þeim hentar. Ég fer ekki ofan af því að ég tel þetta vera öflugasta hópinn í veitingageiranum og þótt víðar væri leitað,“ segir Magnús að lokum.