Félag kvenna í atvinnulífinu (FKA) er þessa dagana að undirbúa árlegu FKA Viðurkenningarhátíðina sem fer fram á Grand Hótel Reykjavík þann 20. janúar næstkomandi. Skipuð hefur verið sjö manna dómnefnd sem mun fara yfir allar tilnefningar og útnefna handhafa viðurkenninga í þremur flokkum.

„Við skipan dómnefndar Viðurkenningarhátíðar FKA er leitast við að einstaklingar hafi sem breiðastan bakgrunn í aldri, reynslu, búsetu og uppruna. Það er í fullu samræmi við stefnu FKA í víðasta skilningi orðsins og eina vitið ef við ætlum að beina kastaranum að ólíkum konum um land allt,“ segir Andrea Róbertsdóttir framkvæmdastjóri FKA.

Formaður dómnefndar 2022 er Hulda Ragnheiður Árnadóttir forstjóri Náttúruhamfaratrygginga Íslands og fyrrverandi formaður FKA. Í dómnefnd með Huldu Ragnheiði eru þau:

  • Gunnlaugur Bragi Björnsson, samskiptastjóri Viðskiptaráðs.
  • Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvá.
  • Jón Þorgrímur Stefánsson, forstjóri NetApp á Íslandi SVP & Global CTO.
  • Tanya Zharov, aðstoðarforstjóri Alvotech.
  • Unnur Elva Arnardóttir, Skeljungi, varaformaður FKA og fulltrúi stjórnar FKA vegna viðurkenningarhátíðarinnar 2022.
  • Veiga Grétarsdóttir, kayakræðir, fyrirlesari, leiðsögukona og umhverfissinni.

FKA kallar eftir tilnefningum frá almenningi og atvinnulífinu en ekki er skilyrði að tilnefndar konur séu meðlimir í FKA. Hægt er að tilnefna konur á heimasíðu FKA til og með 25. nóvember 2021. Um er að ræða eftirfarandi viðurkenningar:

Viðurkenningin er veitt fyrir vel unnin störf í þágu atvinnureksturs kvenna eða þeim sem hafa verið konum í atvinnulífinu sérstök hvatning og fyrirmynd.

Hvatningarviðurkenningin er veitt konu í atvinnulífinu fyrir athyglisvert frumkvæði eða nýjungar í atvinnurekstri.

Þakkarviðurkenningin er veitt konu fyrir eftirtektarvert ævistarf sem stjórnanda í atvinnulífinu.

Viðurkenningarhafar FKA 2020
Viðurkenningarhafar FKA 2020
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Viðurkenningarhafar 2020 voru þær Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, Anna Stefánsdóttir og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir.