Næstkomandi þriðjudag verður kveðinn upp dómur í máli Bjarna Ármannssonar, fyrrverandi bankastjóra hins sáluga Glitnis, gegn íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstól Evrópu (MDE) í Strassbourg.

Málið er tilkomið vegna dóms Hæstaréttar frá því í maí 2014. Þar var Bjarni dæmdur í átta mánaða skilorðbundið fangelsis og til greiðslu tæplega 36 milljón króna sektar fyrir að vantelja fjármagnstekjur á árunum 2007-2009.

Rannsókn skattrannsóknarstjóra hófst á árinu 2009 grunur lék á að ekki hefði verið staðið rétt að skattskilum í tengslum við hagnað við sölu á hlutabréfum í kjölfar þess að Bjarni lét af störfum sem bankastjóri Glitnis. Í ágúst 2012 endurákvarðaði ríkisskattstjóri gjöld vegna þessa að viðbættu 25 prósent álagi.

Í mars 2012 vísaði skattrannsóknarstjóri málinu til sérstaks saksóknara og var sakfelldur fyrir það brot í héraði. Hæstiréttur staðfesti síðar þann dóm og tók ekki til greina kröfur um frávísun málsins sem byggðu á 4. gr. 7. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) sem kveður á um að enginn skuli sæta lögsókn að nýju eða refsingu fyrir sama brot. Synjun Hæstaréttar byggði meðal annars á eldri fordæmum, til að mynda Baugsmálinu, en MDE komst að þeirri niðurstöðu árið 2017 að sú framkvæmd hefði brotið gegn MSE.

Fyrir helgi var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli Sjávarsýnar ehf., sem er í eigu Bjarna, gegn íslenska ríkinu. Þar voru úrskurðir yfirskattanefndar vegna gjaldáranna 2013 og 2014 felldir úr gildi og ríkið dæmt til að endurgreiða félaginu um 80 milljónir króna vegna oftekinna skatta og gjalda. Dæmi MDE Bjarna í hag hefur hann því lagt íslenska ríkið í tvígang með um tveggja vikna millibili.

Dómur verður kveðinn upp 9. apríl næstkomandi klukkan tíu að morgni til að staðartíma í Strassbourg.