Meðal síðustu verka Alþingis fyrir frí í september var að samþykkja áðan frumvarp forsætisráðherra um breytingu á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan stjórnarráðs Íslands. Meðal helstu breytinga eru nafnbreytingar nokkurra ráðuneyta og í athugasemdum við frumvarpið er þetta liður í að gera einingar hagkvæmari og skilvirkari.

Frá og með næsta þriðjudegi heitir dóms- og kirkjumálaráðuneyti dómsmála- og mannréttindaráðuneyti. Menntamálaráðuneytið verður frá sama tíma mennta- og menningarmálaráðuneyti og samgönguráðuneyti verður samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti. Viðskiptaráðuneyti fær einnig nýtt nafn og verður efnahags- og viðskiptaráðuneyti.

Frumvarpið var samþykkt með 35 atkvæðum frá stjórnarliðum og núverandi og fyrrverandi þingmönnum Borgarahreyfingarinnar. Sjálfstæðismenn og framsóknarmenn sögðu ýmist nei, sátu hjá eða voru fjarstaddir. Í minnihlutaáliti þeirra kom meðal annars fram sú gagnrýni að miðað við mikilvægi efnahagsmála nú um stundir væri ekki rétt að færa efnahagsmálin úr forsætisráðuneytinu.