Dómur verður kveðinn upp í Al Thani-málinu svokallaða klukkan þrjú í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Sakborningar eru þeir Sigurður Einarsson, fyrrverandi starfandi stjórnarformaður Kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, fjárfestirinn Ólafur Ólafsson, sem var einn af stærstu einstöku hluthöfum bankans, og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg.

Sérstakur saksóknari telur að um sýndarviðskipti hafi verið að ræða í tengslum við sölu á 5% hlut í Kaupþingi fyrir um 26 milljarða króna. Kaupþing fjármagnaði viðskiptin. Á þeim grundvelli ákærði hann fjórmenningana í málinu. Þeir eru ákærðir fyrir umboðssvik vegna ólöglegra lánveitinga og markaðsmisnotkun fyrir að gefa rangar upplýsingar um stöðu bankans.

Upphaflega stóð til að réttarhöldin færu fram í apríl en dómari frestaði þeim þegar Gestur Jónsson, sem var verjandi Sigurðar, og Ragnar Hall, sem var lögmaður Ólafs, báðust lausnar frá málinu. Aðalmeðferð hófst í málinu í nóvember síðastliðnum.

Saksóknari krefst sex ára fangelsisdóms yfir Sigurði og Hreiðari Má en fjögurra ára fangelsis yfir Magnúsi og Ólafi en þeir eru ákærðir fyrir hlutdeild í meintum brotum Hreiðars og Sigurðar.