Margir lögmenn hafa að undanförnu lýst yfir miklum áhyggjum af því álagi sem þegar er farið að myndast á dómstóla landsins vegna ágreiningsmála sem komið hafa upp í tengslum við bankahrunið. Lögmannafélagið hefur m.a. lýst áhyggjum af miklu álagi sem og Ragna Árnadóttir, ráðherra dómsmála og mannréttinda.

Hróbjartur Jónatansson hrl. segir fulla ástæðu til þess að hafa áhyggjur af álaginu. Hið opinbera geti hins vegar minnkað það, m.a. með lagasetningu til þess að greiða úr álitamálum er tengjast gengistryggðum lánum.

Óhjákvæmilegt sé hins vegar að álagið verði mikið og meira en íslenskt dómskerfi hefur áður fundið fyrir.

“Skilanefndir og slitastjórnir í föllnu bönkunum hafa verið að standa sig vel í því að gæta hagsmuna kröfuhafa, með því m.a. að reyna eftir fremsta megni að endurheimta eignir sem talið er að hafi farið með óeðlilegum hætti út úr bönkunum. Þetta er ein ástæða þess að álag á dómstólana er meira en venjulega. Önnur ástæða fyrir fjölgun mála er að kröfuhafar hafa gert ágreining um meðferð krafna. Síðan liggur fyrir að niðurstaða Hæstaréttar varðandi gengistrygginguna mun ef ekkert verður að gert leiða til mikils fjölda dómsmála. Í fyrsta lagi þarf að leysa úr því fyrir dómstólum hvað kemur í staðinn fyrir gengistryggingu og erlenda vexti í öllum samningum sem þannig eru. Þetta getur verið tímafrekt og ekki hægt að ganga að því vísu að niðurstaða sem varðar einn samning hafi bein áhrif á annan. Þá hafa mörg skuldamál farið í gegnum dómskerfið sem rekja má til hækkunar á skuldum vegna gengisfallsins. Þessi mál, mörg hver, þarf að endurupptaka með tilliti til þess að gengistryggingin hefur verið dæmd ólögleg. Gjaldþrotamál og vörslusviptingar mál eru dæmi um aðgerðir sem kann að þurfa að endurskoða í þessu samhengi. Þetta eru fjölmörg mál sem geta með einhverjum hætti þurft að fara í gegnum dómskerfið. Allt eykur þetta álag á dómskerfið í heild sinni og getur leitt til þess að mál eru lengi að klárast. Sem er slæmt fyrir alla.”

Sjá nánar ítarlegt viðtal við Hróbjart í Viðskiptablaðinu.