Væntar endurheimtur þrotabús Landsbanka Íslands jukust um 37 milljarða króna frá lokum september 2010 og fram að síðustu áramótum. Þær eru nú áætlaðar 1.175 milljarðar króna eða 89% af forgangskröfum í búið. Þetta kom fram á kröfuhafafundi sem skilanefnd bankans hélt í London í gær, og greint var frá í fréttum. Samninganefnd Íslands um Icesave hélt í kjölfarið blaðamannafund þar sem hún kynnti nýtt mat sitt á því hverjar heildargreiðslur ríkissjóðs yrðu vegna Icesave-samninganna, verði þeir samþykktir í þjóðaratkvæðagreiðslu 9. apríl næstkomandi.

Samninganefndin vakti sérstaka athygli á tveimur lagalegum atriðum sem kunni að hafa mjög jákvæð áhrif á kostnað ríkissjóðs vegna Icesave. Annað er hið svokallaða Ragnars Hall-ákvæði, en samkvæmt því mun Tryggingasjóður innstæðueigenda láta reyna á forgang sinn til greiðslna úr þrotabúi Landsbankans umfram innstæðutryggingasjóði Hollands og Bretlands. Kostnaðarmat samninganefndarinnar tekur ekki tillit til að þær kröfur hljóti brautargengi fyrir dómstólum.

Hitt atriðið varðar forgangsrétt svokallaðra heildsöluinnlána. Dómsmál um hvort slíkt séu forgangs- eða almennar kröfur eru nú rekin fyrir íslenskum dómstólum. Verði heildsöluinnlán flokkuð sem almennar kröfur mun fjárhæð forgangskrafna í bú Landsbankans lækka um 147 milljarða króna í 1.172 milljarða króna. Miðað við eignarstöðu þrotabúsins um síðustu áramót myndi það þá eiga fyrir öllum forgangskröfum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.