Mál gegn fjármögnunarfyrirtækinu Lýsingu, sem höfðuð hafa verið á tímabilinu janúar 2010 til janúar 2015, eru 874 talsins. Þetta kemur fram í skýrslu sem Samtök iðnaðarins hafa látið taka saman, en Morgunblaðið greinir frá málinu.

Þar segir að markmið skýrslunnar sé að varpa ljósi á þau vandamál sem viðskiptavinir Lýsingar hafi staðið frammi fyrir þar sem þyngst vegi deilur sem varði gengistryggða fjármögnunarsamninga.

Í 661 tilviki voru gagnaðilar Lýsingar einstaklingar, í 210 tilvikum voru það fyrirtæki en í þremur var gagnaðilinn íslenska ríkið. Í janúar á þessu ári voru enn óleyst 510 dómsmál tengd Lýsingu og var fyrirtækið til varnar í 392 þeirra.