Sylvi Listhaug dómsmálaráðherra Noregs hefur lýst því yfir að hún segi af sér embætti ráðherra í aðdraganda atkvæðagreiðslu um vantraust á hana. Sagðist hún gera það til að bjarga ríkisstjórninni og tryggja að verkamannaflokkurinn gæti ekki tekið stjórnartaumana í landinu.

Mikið fjaðrafok hefur verið í Noregi síðustu vikuna síðan ráðherrann skrifaði facebook færslu þar sem hún gagnrýndi norska verkamannaflokkinn eftir að flokkurinn hafði kosið gegn lögum sem hefði gert auðveldara að svipta grunaða hryðjuverkamenn norskum ríkisborgararétti.

Listhaug er ráðherra Framfaraflokksins í Noregi sem situr í minnihlutastjórn með Hægriflokki Ernu Solberg forsætisráðherra með stuðningi Kristilega Þjóðarflokksins.

Solberg hafði hótað afsögn ríkisstjórnarinnar ef vantraustið hefði verið samþykkt, en þingmenn þjóðarflokksins ákváðu í gær að krefjast afsagnar hennar ellegar myndi flokkurinn styðja vantrauststillögu Verkamannaflokksins.

Þingmenn verkamannaflokksins gagnrýndu lagasetninguna á þeim forsendum að það ætti að vera mögulegt fyrir hina grunuðu hryðjuverkamenn að áfrýja ákvörðun um sviptingu ríkisborgararétts til dómstóla.

Gagnrýndi Verkamannaflokksins fyrir að verja réttindi hryðjuverkamanna

Að því tilefni ritaði Listhaug á facebook síðu sína að Verkamannaflokkurinn teldi réttindi hryðjuverkamanna mikilvægari en þjóðaröryggi landsins.

Í gagnrýninni sem blossaði upp í kjölfarið var mikið vísað í árás norska öfgamannsins Anders Behring Breivik sem drap 69, flesta á hátíð ungliðahreyfingar Verkamannaflokksins í eyju utan Osló.

Listhaug segir vikuna hafa verið  „súrrealíska þar sem Facebook-færslu hafi tekist að breyta norskum stjórnmálum í leikskóla. Þetta hafa verið algerar nornaveiðar, til þess eins ætlaðar að hefta tjáningarfrelsið.“