Máli slitastjórnar Glitnis gegn sjö fyrrum stjórnendum og eigendum Glitnis og PwC, endurskoðanda bankans, var vísað frá fyrir dómi í New York 14. desember í fyrra. Dómarinn í málinu komst að þeirri niðurstöðu að málið ætti heima á Íslandi því allir aðilar þess eru íslenskir. Fyrir skömmu var eftirrit af málflutningnum þann 14. desember birt á heimasíðu dómstólsins í New York. Viðskiptablaðið birtir hér brot af því sem þar fór fram.

Um hvort málið ætti heima í New York eða á Íslandi

Stephen P. Younger, lögmaður hjá Patterson, Belknap, Webb & Tyler, sem flutti málið fyrir hönd hinna stefndu :

„Það er einnig óvefengjanlegt að allir málsaðilar eru íslenskir [...] Þetta er ekki eins og venjulegt mál þar sem stefnandi kemur og segist vera að stefna í heimadómstól sínum. Hérna er hann að flýja heimadómstólinn.

Það er óvefengjanlegt að lykilvitni og stór hluti sönnunargagna eru ekki bara á Íslandi, heldur þarf að þýða þau líka. Þú sérð öll gögnin sem eru nú þegar fyrir framan þig. Ímyndaðu þér byrðina við að þurfa að þýða þau öll. Við getum ekki einu sinni borið fram þessi nöfn, hvað þá þýtt þetta allt saman.

Við höfum borið kennsl á fjörutíu vitni sem eru á Íslandi. Þeir [innsk. blaðam. lögmenn slitastjórnar] hafa sagt, gott og vel, það eru átta einstaklingar sem eru tilbúnir að koma hingað, fimm þeirra er stjórnað af þeim. Einn þeirra fékk að auki friðhelgi.“

Sá sem fékk friðhelgi frá málsókn er Alexander Guðmundsson, fyrrum fjármálastjóri Glitnis.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.