Máli slitastjórnar Glitnis gegn sjö fyrrum stjórnendum og eigendum Glitnis og PwC, endurskoðanda bankans, var vísað frá fyrir dómi í New York 14. desember í fyrra. Dómarinn í málinu komst að þeirri niðurstöðu að málið ætti heima á Íslandi því allir aðilar þess eru íslenskir. Fyrir skömmu var eftirrit af málflutningnum þann 14. desember birt á heimasíðu dómstólsins í New York. Viðskiptablaðið birtir hér brot af því sem þar fór fram.

Stephen P. Younger, lögmaður hjá Patterson, Belknap, Webb & Tyler, sem flutti málið fyrir hönd hinna stefndu : .

„Mér finnst það ótrúlegt að þeir segi að ástæðan sé sú að það sé svo mikið að gera hjá íslenskum dómstólum. Ef þú lítur á tölfræðina þá tel ég að dómarinn myndi elska að vera íslenskur dómari. Á fyrstu sex mánuðum þessa árs ...

Ramos dómari: Ekki segja mér að þeir hafi fengið launahækkun.

Younger : Ég skal segja þér tvennt: Annars vegar, þá fengu þeir færri en þrettán ný mál á hvern dómara. Minna en þrettán, er það flóð? Ég meina, dómarinn þekkir flóð. [...] Þeir hafa ekki fengið launahækkanir, en það er löggjöf sem er að verða að veruleika sem á að fjölga dómurum. Það hljómar því ótrúlega fyrir mér að þeir segi að ástæðan fyrir því að þeir eru hér sé sú að þessi dómstóll hafi miklu meiri tíma en íslenska réttarkerfið [...]

Ramos dómari: Við þurfum ekki að auka vinnuna. Hversu mörg mál heldurðu að hver dómari á Íslandi sé með á skrá? Veistu það? Ég er með þrjú hundruð og fimmtíu.

Younger: Eina sem ég veit er að þeir fengu þrettán ný mál á síðustu sex mánuðum.

Ramos dómari: Ég fæ þrettán á viku [...]

Michael C. Miller, lögmaður hjá Steptoe & Johnson, flutti málið fyrir hönd slitastjórnar Glitnis: Raunveruleikinn er sá að íslenska kerfið [...] hefur ekki reynslu af því að takast á við flókin alþjóðleg mál af þessum toga. Það er hæfileikaríkt fólk þarna, en það hefur aldrei séð svona mál, það er númer eitt.

Ramos dómari: Veistu hvað? Sú var tíðin að ég hafði ekki séð þau heldur. Og eldri meðeigandi var vanur að segja við mig þegar ég lagði stund á lögmannsstörf að eina leiðin til að flytja mál væri að flytja það. Og eina leiðin sem íslenskir dómstólar munu læra hvernig þeir eiga að takast á við mál sem þetta er að takast á við það.“

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.