*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 4. október 2014 13:25

Dómstólar meti sönnunargildið

Ekki er útilokað að leggja fram gögn í sakamáli sem aflað hefur verið með ólögmætum hætti, að mati Sigurðar Tómasar Magnússonar.

Ritstjórn
Sigurður Tómas Magnússon.
Haraldur Jónasson

Fram kom í síðustu viku að Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri hefði sent fjármálaráðuneytinu greinargerð eftir að hafa farið yfir sýnishorn af gögnum með nöfnum nokkurra hundraða Íslendinga sem tengist skattaskjólum. Fékk skattrannsóknarstjóri gögnin frá aðila erlendis sem vill selja embættinu gögnin og er það nú ráðuneytisins að ákveða hvort það verði gert.

Ekki hefur komið fram með hvaða hætti gagnanna var aflað og hefur því verið velt upp hvort það hafi verið gert með ólögmætum hætti. Vakna þá enn fremur spurningar um hvort almennt sé heimilt að leggja fram gögn í dómsmáli sem hefur verið aflað ólöglega.

Sigurður Tómas Magnússon, atvinnulífsprófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík og sérfræðingur í sakamálaréttarfari, kveðst ekki hafa nægar upplýsingar um málið til þess að geta metið hvort slíkt væri heimilt í þessu tilviki. Almennt sé þó ekki loku fyrir það skotið að unnt sé að leggja slík gögn fram í dómsmáli. „Það getur í sjálfu sér varðað viðurlögum að þiggja gögn sem hefur verið aflað með ólögmætum hætti, ef móttaka gagnanna þykir hluti af einhverju broti. Gögn kunna að vera ótæk sem sönnunargögn ef þau eru fengin fram með þvingunum eða pyntingum eða öðru slíku og það stafar auðvitað fyrst og fremst af því að slík sönnunargögn hafa ekkert gildi.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.