Bandarískur dómstóll hefur kveðið að Apple megi banna tölvuleikinn Fortnite frá App Store en að tæknirisinn megi ekki koma í veg fyrir að Epic Games, sem gaf út tölvuleikinn, útvegi hugbúnað fyrir önnur smáforrit í netversluninni.

Héraðsdómarinn varaði Apple við því að skaða ekki fyrirtæki sem reiða sig á hugbúnaðinn ‚Unreal Engine‘ sem Epic býður upp á. Apple hafði hótað því að afturkalla aðgang Epic að hönnunarkerfi iOS stýrikerfisins.

„Epic Games og Apple eiga rétt á að lögsækja hvort annað en deilur þeirra ættu ekki að skapa tjón fyrir hlutlausa aðila,“ er haft eftir dómaranum í frétt Financial Times .

Apple fjarlægði Fortnite úr netverslun sinni eftir að Epic hafði fundið leið sem gerði notendum kleift að versla innan leiksins án þess að greiða Apple 30% þóknunargjald, sem ku vera brot á reglum App Store.

Á síðustu dögum hafa iPhone símar sem innihalda Fortnite smáforritið farið í sölu á Ebay á uppsprengdu verði þar sem bann Apple hefur ekki áhrif á notendur sem höfðu þegar hlaðið niður forritinu.