Bandarískur dómstóll hefur svipt fjármálamanninn Bernard Madoff rétti að eignum að fjárhæð 170 milljarðar dollara sem er það fé sem saksóknarar segja að farið hafi í gegnum fjárfestingarfyrirtæki hans á liðnum árum.

Í mars síðastliðnum viðurkenndi Madoff að hafa gerst sekur um fjárfestingasvik upp á 50 milljarða dollara. Dómur verður kveðinn upp yfir honum á morgun. Verjendur hans hafa farið fram á 12 ára fangelsisdóm en saksóknarar krefjast 150 ára fangelsis.

Eiginkona Madoffs hefur samþykkt að láta af hendi eignir að fjárhæð 80 milljónir dollara, þeirra á meðal heimili þeirra á Manhattan, annað hús í New York og hús á Florida. Hún hefur ekki verið sakfelld vegna málsins og heldur eftir reiðufé upp á  2,5 milljónir dollara.

Að sögn saksóknara er tapað fé vegna svikastarfsemi Madoff komið yfir 13 milljarða dollara.

Bernard Madoff hefur viðurkennt að hafa svikið fé út úr þúsundum fjárfesta í ráðabruggi sem staðið hefur síðan snemma á tíunda áratugnum. Svikin fóru þannig fram að hann greiddi fjárfestum ekki af arði sem fjárfestingin gaf heldur með peningum sem aðrir fjárfestar lögðu inn.

Fréttavefur BBC skýrir frá þessu.