Gert er ráð fyrir því að félagsdómur muni kveða upp dóm í álversdeilu fyrir miðnætti annað kvöld. Það er áður en að boðað útflutningsbann hafnarstarfsmanna í Straumsvík hefst, en að óbreyttu munu þeir hætta umskipun frá miðnætti annað kvöld. Þetta kemur fram á fréttastofu RÚV.

Verkalýðsfélagið Hlíf samþykkti vinnustöðvun og útflutningsbann á áli frá Straumsvík í síðustu viku í kjölfar þess að forstjóri Rio Tinto tilkynnti um að engar launahækkanir yrðu innan fyrirtækisins á þessu ári. RioTinto Alcan telur að útflutningsbannið sé ólögmætt og vísaði málinu til félagsdóms. Málið var þingfest í gær, málflutningur verður síðdegis á morgun og dómur verður kveðinn upp annað kvöld.