*

laugardagur, 8. ágúst 2020
Innlent 25. júní 2020 15:50

Dómur Hæstaréttar opni Pandórubox

Fjöldi arðgreiðslna undanfarin ár telst ólögmætur og mörg félög gætu verið með „sýkt eigið fé“. Ekki liggur fyrir hvað Skatturinn gerir.

Jóhann Óli Eiðsson
Heimildir Viðskiptablaðsins herma að skiptar skoðanir séu innan Skattsins um hvað skuli gera við niðurstöðuna.
Haraldur Guðjónsson

Dómur Hæstaréttar Íslands í máli International Seafood Holding gegn ríkinu gæti opnað Pandórubox að mati sérfræðings í skatta- og félagarétti. Niðurstaða dómsins felur í sér að fyrirkomulag arðgreiðslna, sem viðhaft hefur verið um áratugaskeið, stenst ekki hlutafélagalöggjöfina. Mörg félög gætu verið með „sýkt eigið fé“ vegna niðurstöðunnar og gæti hún gefið Skattinum tilefni til að endurupptaka opinber gjöld félaga og hluthafa sex gjaldár aftur í tímann. Afleiðingarnar af því gætu orðið gífurlegar.

Dómkrafa málsins varðaði aðeins rúmlega tólf milljónir króna en það sem lá undir var talsvert veigameira. Umrætt félag var eignarhaldsfélag sem átti dótturfélag, Iceland Seafood International, hér á landi. Það átti síðan fleiri dótturfélög. Við uppgjör félaganna var svokallaðri hlutdeildaraðferð beitt, það er hlutdeildartekjur eða -tap dótturfélaga var fært sem tekjur í rekstrarreikning, þaðan í óráðstafað eigið fé sem síðan hefur grundvallaráhrif á hve miklu má úthluta í arð.

Í dómi Hæstaréttar segir að umrædd stærð geti ekki skapað frjálsan sjóð í bókum móðurfélagsins og því hafi verið ólögmætt að úthluta arði með þessum hætti. Frá því að dómurinn féll hefur Viðskiptablaðið rætt við fjölda sérfræðinga, bæði á sviði reikningsskila og í skattarétti, frá því að dómurinn var kveðinn upp. Þeir hófstilltustu í orðavali eru ýmist hvumsa eða óánægðir en þau sem harðorðari eru hafa brúkað frasa á borð við „stórkostlega furðulegt“ og „algjörlega galinn dómur“.

Sjá einnig: Arðgreiðsluvenja stenst ekki lög

Umrædd venja hefur verið viðhöfð um áratuga skeið eða allt þar til ársins 2016. Þá var gerð breyting á ársreikningalögum sem fól í sér að hlutdeild í afkomu dótturfélags beri að færa á bundinn eiginfjárreikning. Sá hlutur sem þó var greiddur í arð frá dótturfélagi til móðurfélags fór hins vegar áfram inn á óráðstafað eigið fé. Greinargerð með frumvarpinu er þögul um það hvort um nýmæli frá fyrri rétti hafi verið að ræða eður ei.

Síðan þá hafa félög gert upp með þeim hætti þegar hlutdeildaraðferðinni er beitt. Endurskoðendum og stjórnendum félaga kom hins vegar ekki til hugar að téð breyting gæti gilt með afturvirkum hætti, það er fyrir ársbyrjun 2016, eða að líkur væru á að dómstólar kæmust að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin hefði verið í andstöðu við hlutafélagalöggjöfina um áratuga skeið.

Af því mætti ætla að dómurinn hefði fyrst og fremst réttarsögulegt gildi og lítil áhrif fram á við. Hins vegar er ekki útséð með það. Í beiðni ríkisins um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar kom nefnilega fram að dómur í málinu gæti haft áhrif á endurupptöku fjölda mála sex gjaldár aftur í tímann.

Allir í góðri trú í fjölda ára

Áhrifin vegna dómsins gætu orðið gífurleg. Ímyndum okkur til að mynda félagið Ömmu hf., sem síðan á Móður ehf. og það félag á síðan Son ehf. og Dóttur ehf. Afkoma Sonar og Dóttur hefur verið færð með fyrrgreindum hætti í bókum Móður og þannig áfram upp til Ömmu. Amma greiðir síðan út arð í samræmi við þetta. Til að koma í veg fyrir tví- eða margsköttun þá eru arðgreiðslur ekki skattlagðar upp alla keðjuna á milli félaga heldur aðeins í lokin en það er þó háð því að um lögmæta arðsúthlutun sé að ræða. Ef um ólögmæta úthlutun er á ferð er unnt að skattleggja í hverju og einu þrepi keðjunnar.

„Að mínu viti kom dómurinn eins og þruma úr heiðskíru lofti,“ segir Jónas Rafn Tómasson, lögmaður og eigandi hjá KPMG lögmönnum.

„Ég fæ ekki betur séð en að hann opni Pandórubox en það veltur á því hvað Skatturinn gerir í kjölfar hans. Ætlar hann að endurupptaka álagningu allra félaga sem hafa greitt arð með þessum hætti, og þá einnig hluthafana sem tóku við arðinum í góðri trú um að allt væri gert lögum samkvæmt? Allir endurskoðendur, bókhaldarar og skattasérfræðingar voru í góðri trú með þetta enda um áratuga langa framkvæmd að ræða. Engum datt í hug að þetta gæti orkað tvímælis,“ segir Jónas.

Hvað hluthafa félaga varðar þá kveða lög á um að taki þeir við ólögmætum arði þá skattleggist hann ekki sem fjármagnstekjur heldur sem almennar launatekjur. Meginreglan er síðan sú að fjórðungsálag leggist ofan á hinn nýja skattstofn nema umræddur aðili eigi sér sérstakar málsbætur.

Eigið fé félaga gæti verið sýkt

Sem fyrr segir var lögum um ársreikninga breytt árið 2016 og því mætti ætla að aðeins væru tekjuárin 2014 og 2015 að ræða. Jónas segir hins vegar að málið sé ekki endilega svo einfalt.

„Þetta fyrirkomulag hefur verið við lýði í marga áratugi. Þó félög hafi breytt sinni framkvæmd frá 2016 þá eru vafalaust mörg þeirra sem eiga afgang frá eldri tíð, sem við gætum kallað sýkt eigið fé, í sínum bókum. Það sýkta eigið fé myndaði mögulega grunn að arðgreiðslum árin 2016-2020 og þar með gæti Skatturinn haft heimild til að endurákvarða opinber gjöld þau ár,“ segir Jónas. Afleiðingin sé sú að félög landsins þurfi að rekja bækur sínar nánast „aftur til landnáms“ til að finna út hvað sé frjáls sjóður og hvað teljist sýkt eigið fé.

Eftir að dómurinn féll beindi Viðskiptablaðið fyrirspurn til Skattsins um hvað embættið hygðist gera með niðurstöðu Hæstaréttar. Svar hefur ekki borist. Heimildir blaðsins herma innanhúss hjá Skattinum skiptist menn í tvo hópa, annars vegar þá sem telja dóminn beinlínis rangan og rétt að aðhafast ekkert en hins vegar þá sem vilja enduropna mál á grunni hans.

Verði lagt af stað af fullum krafti er ljóst að það gæti haft gífurleg áhrif á öll félög sem gert hafa upp með þessum hætti. Í þann hóp falla til að mynda flest af félögunum sem skráð eru á aðalmarkað Kauphallarinnar og gætu áhrifin orðið umtalsverð, jafnt hjá félögunum sjálfum og hluthöfum þeirra.