Hreiðar Már Sigurðsson er „undir rökstuddum grun um að hafa framið fjölmörg brot er fangelsisrefsing liggur við.“

Þetta kemur fram í dómi Hæstaréttar vegna kæru Hreiðars Más á gæsluvarðhaldsúrskurði yfir honum sem féll á föstudag. Viðskiptablaðið hefur dóminn undir höndum.

Hæstiréttur staðfesti gæsluvarðhaldsúrskurðinn yfir Hreiðari Má og mun hann því sitja í varðhaldi fram í miðja næstu viku.

Í dómi Hæstaréttar segir að hin ætluðu brot Hreiðars Más eigi að „hafa verið framin á nokkrum árum og til loka árs 2008. Sóknaraðila [innsk. blaðam. sérstakur saksóknari] bárust erindi og kærur vegna þeirra frá Fjármálaeftirlitinu á tímabilinu 13. mars 2009 til 22. mars 2010. Þrátt fyrir að langt sé liði frá því að hin ætluðu brot eiga að hafa verið framin verður að líta til þess að þau lúta verulegum fjárhæðum, varða flókin fjárviðskipti og margir eiga að hafa komið að málum, eftir atvikum með skipulögðum hætti. Þá er hvorki ljóst hversu meintur ávinningur af ætluðum brotum sé mikill né hvert hann á að hafa runnið.“

Viðskiptablaðið mun greina frekar frá dómi Hæstaréttar síðar í dag.