„Ég er sammála forsendum og niðurstöðu meirihluta dómara um að ekki séu efni til að fallast á kröfu varnaraðila um ómerkingu hins kærða úrskurðar og rökstuðning fyrir henni.“

Þannig hljómar byrjunin á sératkvæði Jóns Steinars Gunnlaugssonar, hæstaréttadómara, en sem kunnugt er staðfesti Hæstiréttur í gær gæsluvarðhaldsúrskurðinn yfir þeim Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrv. forstjóra Kaupþings, og Magnús Guðmundssyni, fyrrv. framkv.stjóra Kaupþings í Lúxemborg.

Í málinu dæmdu þau Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Jón Steinar skilaði sératkvæði en var, eins og fram kemur hér í byrjun, sammála þeim Ólafi Berki og Hjördísi um forsendur og niðurstöðu dómsins. Viðskiptablaðið hefur sem kunnugt er dóminn yfir gæsluvarðhaldskúrskurði Hreiðars Más undir höndum.

Þá tekur Jón Steinar fram að hann fallist á rök sérstaks saksóknara fyrir því að rökstuddur grunur sé fyrir því að Hreiðar Már hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing sé lögð við.

Hins vegar telur Jón Steinar að í ljósi þess að meint brot hafi verið framin á árunum 2005-2008.

„Á þeim tíma, sem liðinn er síðan, hefur þráfaldlega verið fjallað um hin ætluðu brot á opinberum vettvangi og fyrir hefur legið að þau kynnu að koma til opinberrar rannsóknar. Þá hefur [Hreiðar Már] á þessu tímabili verið yfirheyrður hjá lögreglu sem sakborningur að því er nokkur þeirra varðar,“ segir Jón Steinar í áliti sínu.

Þá tekur Jón Steinar einnig fram að sérstakur saksóknari hafi aflað skjala hjá Kaupþing banka auk þess að framkvæma húsleit á heimili og vinnustað Hreiðars Más í þágu rannsóknar sinnar. Einnig liggi fyrir að varnaraðili hafi ekki lengur aðgang að gögnum sem voru í vörslu Kaupþings í október 2008 þegar Fjármálaeftirlitið tók bankann yfir.

„Samkvæmt þessu er ekki efni til að ætla að varnaraðili [Hreiðar Már innsk.blaðamanns] geti torveldað rannsóknina með því að koma skjallegum sönnunargögnum undan,“ segir í áliti Jóns Steinars.

„Varnaraðili mótmælir því að hætta sé á að hann muni reyna að hafa áhrif á aðra grunaða og vitni gangi hann laus. Bendir hann meðal annars á að hann hafi haft næg tækifæri til þess á þeim tíma sem liðinn er frá ætluðum brotum og ekki fái staðist að svipta megi hann frelsi sínu af slíku tilefni.“

Þá segir Jón Steinar jafnframt:

„Samkvæmt [lögum] er ekki heimilt að fallast á kröfu sóknaraðila nema ætla megi að varnaraðili „muni“ torvelda rannsókn málsins. Sóknaraðili rökstuddi ekki sérstaklega við meðferð málsins í héraði á hverju hann byggði ætlan sína um þetta. Hann hefur ekki bætt úr þessu í Hæstarétti.“

Þannig segir Jón Steinar að sérstakur saksóknari hafi haldið því fram að Hreiðar Már „geti“ torveldar rannsókn málsins. Sú forsenda sé efnislega frábrugðin því sem lögin segi til um auk þess að vera með öllu órökstudd.

„Ég tel þennan annmarka á úrskurðinum samt ekki þess háttar að valda eigi ómerkingu hans heldur tel ég að málið liggi þannig fyrir Hæstarétti að leggja beri dóm á það,“ segir Jón Steinar.

Loks segir Jón Steinar að hann geri ekki ágreining við hina dómarana um að gögn málsins bendi til þess að málið sé ekki fullrannsakað. Það geti hins vegar ekki að hans dómi verið röksemd fyrir því að úrskurða megi Hreiðar Má í gæsluvarðhald í þágu rannsóknarhagsmuna.

Í lokin segir Jón Steinar að í stjórnarskránni séu gerðar strangar kröfur til þess að hneppa megi í gæsluvarðhald menn sem grunaðir séu um refsiverða háttsemi.

„Ég tel með vísan til þess sem að framan greinir að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að skilyrði séu til að varnaraðili verði látinn sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli [laga]. Beri því að fella hinn kærða úrskurð úr gildi,“ segir Jón Steinar í lokin.