Embætti sérstaks saksóknara taldi Hreiðar Má Sigurðsson, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, líklegan til þess að „torvelda” rannsókn málsins og var því farið fram á gæsluvarðhald yfir Hreiðari Má. Hæstiréttur féllst á þetta í dómi sínum.

„Samkvæmt framanrituðu verður fallist á það með sóknaraðila að atvik séu með þeim hætti að ætla megi að varnaraðili muni torvelda rannsókn málsins sæti hann ekki gæsluvarðhaldi. Að þessu virtu verður hinn kærði úrskurður staðfestur,” segir í lokaorðum dómsins sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum.

Í dómnum kemur fram að ætluð brot, sem Hreiðar Már er grunaður um, eiga að hafa verið framin á „nokkrum árum og til loka árs 2008”.

Málið byggir m.a. á rannsókn Fjármálaeftirlitsins en kærur bárust til embættis sérstaks saksóknara 13. mars 2009 og 22. mars 2010. Hreiðar Már hefur neitað sök.

Tekið er fram í dómnum að framburður hans sé „að ýmsu leyti ekki í samræmi við framburð annarra sem þegar hafa gefið skýrslur við rannsókn málsins.” Einnig er tekið fram að taka þurfi skýrslur af vitnum eða eftir atvikum sakborningum.

Í dómnum kemur fram að Hreiðar Már sé grunaður um að hafa framið „fjölmörg brot er fangelsisrefsing liggur við sem framin voru á árunum 2005 til og með 2008. Jón Steinar Gunnlaugsson skilaði sératkvæði í Hæstarétti og lagðist gegn gæsluvarðhaldsúrskurðinum þar sem hann taldi ekki að Hreiðar Már gæti torveldað rannsókn málsins.

Viðskiptablaðið mun greina frekar frá dómi Hæstaréttar, og sératkvæði Jóns Steinars, síðar í dag.