Mál nr. 181/2006.

Ákæruvaldið
(Sigurður Tómas Magnússon settur ríkissaksóknari)
gegn
Jóni Ásgeiri Jóhannessyni
(Gestur Jónsson hrl.),
Kristínu Jóhannesdóttur
(Kristín Edwald hrl.),
Stefáni Hilmari Hilmarssyni og
Önnu Þórðardóttur
(Þórunn Guðmundsdóttir hrl.)

Bókhald. Ársreikningar. Endurskoðendur. Tolllagabrot. Skjalabrot.

Opinbert mál var höfðað á hendur JÁ, J, K, T, SH og A, en 32 af 40 ákæruliðum var vísað frá héraðsdómi með dómi Hæstaréttar í máli nr. 420/2005. Hins vegar var lagt fyrir héraðsdóm að taka aðra ákæruliði til efnismeðferðar og var leyst úr þeim með hinum áfrýjaða dómi. Fyrir Hæstarétti sneri málið að 33., 34., 35., 36., 38. og 40. ákærulið, en fallið hafði verið frá sökum á hendur J og T og jafnframt dregið úr sakargiftum á hendur öðrum. Samkvæmt 33. til 36. lið ákæru var JÁ gefið að sök að hafa brotið gegn 43., sbr. 36. gr. þágildandi laga nr. 144/1994 um ársreikninga með því að hafa í starfi forstjóra B hf. látið rangar og villandi skýringar fylgja ársreikningum félagsins 1998 til 2001, þar sem látið hafi verið hjá líða að tilgreina nánar tiltekna fjárhæð lána, sem hafi verið veitt honum sjálfum, K og tveimur nafngreindum félögum. Við skýringu á merkingu hugtaksins lán var tekið mið af því að eingöngu reyndi á hana við úrlausn um hvort JÁ hefði gerst sekur um refsiverða háttsemi. Var hugtakið því skýrt eftir orðanna hljóðan, en við skýringu á ákvæðinu jafnframt litið til 2. og 3. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 696/1996. Tekið var fram að þær fjárhæðir, sem tilgreindar voru í ákæru, hefðu myndast sem mismunur B hf. til eignar, sem stóð í lok hvers reikningsárs í bókhaldi félagsins á viðskiptareikningum hvers skuldara. Var ekki fallist á með ákæruvaldinu að hugtakið lán tæki til heildarfjárhæðar krafna B hf. á hendur fyrrgreindum aðilum í lok hvers reikningsárs, án þess að frekar yrði að huga að því hvernig kröfurnar hefðu myndast. Af skoðun á viðskiptareikningum var talið að tilteknar færslur sem taldar voru B hf. til eignar gætu ekki talist hafa komið til með veitingu láns, óljóst væri af bókhaldsgögnum hvort aðrar færslur hefðu stafað af lánveitingum og þar að auki væri nokkur fjöldi færslna sem allar líkur virtust á að skipa ætti þannig í flokk. Auk þessa og annarra álitaefna var þó talið skipta mestu máli að JÁ, SH og A hefði ekki gefist fyrir dómi kostur á að koma fram skýringum og afstöðu sinni til þess hvort einstakar færslur varði lán í skilningi 43. gr. laga nr. 144/1994 og eftir atvikum hvort einhverjar gætu hafa verið undanþegnar tilgreiningarskyldu samkvæmt ákvæðinu. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu JÁ, SH og A af þessum sakargiftum. Í 38. lið ákæru var JÁ sakaður um að hafa brotið gegn tollalögum og almennum hegningarlögum með því að hafa við innflutning bifreiðar í nafni B hf. gefið rangar upplýsingar um verð hennar í aðflutningsskýrslu og lagt fram því til stuðnings tilhæfulausan reikning. Þótt lagt væri til grundvallar að JÁ hefði verið kunnugt um að greiðslur vegna bifreiðarinnar hefðu numið hærri fjárhæð en sem tilgreind var í þeim reikningi, sem lá til grundvallar aðflutningsskýrslu, var ekki talið sannað gegn eindreginni neitun hans að hann hefði ákveðið eða lagt á ráðin um hvaða gögn yrðu afhent því félagi sem sá um gerð skýrslunnar eða skipt sér að öðru leyti af skýrslugerð. Ekki var talið nægilega hafið yfir skynsamlegan vafa að mistök annarra starfsmanna félagsins hefðu ekki valdið því að ranglega hefði verið staðið að verki við samantekt gagna um verð bifreiðarinnar til undirbúnings greiðslu aðflutningsgjalda. Var niðurstaða héraðsdóms um sýknu JÁ af þessum sakargiftum því staðfest. Í 40. lið ákæru var K sökuð um brot gegn tollalögum og almennum hegningarlögum með því að hafa við innflutning bifreiðar gefið rangar upplýsingar um verð hennar í aðflutningsskýrslu og lagt fram því til stuðnings tilhæfulausan reikning. Ekki voru talin fram komin viðhlítandi gögn um gangverð bifreiðar, eins og þeirrar sem um ræddi, á þeim stað og tíma sem kaupin voru gerð. Þá var þrátt fyrir umtalsverða sönnunarfærslu talið óljóst hvað ætla mátti að það félag sem útvegaði K bifreiðina kynni að hafa greitt fyrir hana. Að þessu athuguðu var fallist á með héraðsdómi að gegn eindreginni neitun K hefði ekki verið færðar viðhlítandi sönnur fyrir þeim sökum sem hún var borin. Var niðurstaða dómsins um sýknu hennar því staðfest.



Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Hjördís Hákonardóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar af hálfu ákæruvaldsins 22. mars 2006 og krefst ?sakfellingar samkvæmt ákæru útgefinni 1. júlí 2005 hvað varðar ákæruliði 33 til 36, 38 og 40 og að ákærðu verði dæmd til refsingar.?

Ákærðu krefjast staðfestingar héraðsdóms.

I.

Mál þetta höfðaði ríkislögreglustjóri gegn ákærðu ásamt Jóhannesi Jónssyni og Tryggva Jónssyni með ákæru 1. júlí 2005, þar sem lýst var í 40 liðum sökum á hendur þeim, ýmist einu þeirra eða fleirum í hverjum lið fyrir sig. Samkvæmt því, sem greindi í ákærunni, gegndi ákærði Jón Ásgeir Jóhannesson starfi forstjóra Baugs hf. frá 7. júlí 1998 til 3. júní 2002 og stjórnarformanns frá síðastnefndum degi, en Tryggvi Jónsson starfi aðstoðarforstjóra sama félags frá 7. júlí 1998 til 3. júní 2002 og forstjóra frá þeim tíma. Hafi Jóhannes Jónsson verið starfsmaður félagsins og átt sæti í stjórn þess frá 7. júlí 1998, en ákærða Kristín Jóhannesdóttir verið varamaður í stjórninni frá 26. apríl 2000, auk þess að vera framkvæmdastjóri Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. frá 27. ágúst 1999. Þá hafi ákærði Stefán Hilmar Hilmarsson einn verið löggiltur endurskoðandi Baugs hf. frá 7. júlí 1998 fram að árinu 2000, en upp frá því með ákærðu Önnu Þórðardóttur. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 20. september 2005 var málinu vísað frá dómi. Sú niðurstaða var staðfest með dómi Hæstaréttar 10. október sama ár í máli nr. 420/2005 að því er varðaði fyrstu 32 liði ákærunnar, en að öðru leyti var úrskurðurinn felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka 33. til og með 40. lið hennar til efnismeðferðar. Með hinum áfrýjaða dómi var leyst að efni til úr því, sem samkvæmt þessu stóð eftir af upphaflega málinu.

Í 33. og 34. lið ákærunnar var sökum beint að ákærðu Jóni Ásgeiri og Stefáni Hilmari ásamt Tryggva Jónssyni, en í 35. og 36. lið að þeim sömu og ákærðu Önnu. Nánar tiltekið var ákærði Jón Ásgeir í 33. lið ákæru sakaður um að hafa sem forstjóri Baugs hf. við undirbúning, gerð og framsetningu ársreiknings félagsins vegna ársins 1998 með tilstuðlan Tryggva, aðstoðarforstjóra félagsins og yfirmanns fjármála, sett fram rangar og villandi sérgreiningar á liðum skammtímakrafna í efnahagsreikningi, þar sem ekki var sérstaklega getið fjárhæðar lána til hluthafa, stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og aðila þeim nátengdum, sundurliðaðri með upplýsingum um vexti, greiðslukjör og aðra helstu skilmála, heldur hafi hún verið felld undir liðinn aðrar skammtímakröfur í efnahagsreikningi, auk þess sem hennar hafi ekki verið getið í skýrslu stjórnar eða skýringum við ársreikninginn, eins og hafi borið að gera. Ákærði Stefán Hilmar var borinn sökum um að hafa sem endurskoðandi félagsins áritað án fyrirvara ársreikninginn með röngum og villandi sérgreiningum og án viðeigandi skýringa. Við þennan lið ákærunnar var tiltekið að lán af þeim toga, sem hér um ræðir, hafi í lok ársins 1998 numið annars vegar 221.298 krónum til ákærða Jóns Ásgeirs og hins vegar 401.430 krónum til Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. Ákærði Jón Ásgeir var sakaður um að hafa brotið með þessu gegn 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum og 2. tölulið 1. mgr. 83. gr., sbr. 82. gr., 43. gr. og 36. gr. þágildandi laga nr. 144/1994 um ársreikninga, Tryggvi gegn sömu lagaákvæðum, til vara sem hlutdeildarmaður, sbr. 22. gr. almennra hegningarlaga og 2. mgr. 83. gr. laga nr. 144/1994, og ákærði Stefán Hilmar gegn 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga og 2. og 3. tölulið 85. gr., sbr. 82. gr., 43. gr. og 36. gr. laga nr. 144/1994. Í 34. lið ákæru var efnislega samhljóða sakargiftum beint að sömu mönnum vegna ársreiknings Baugs hf. fyrir árið 1999, en lán við lok þess reikningsárs hafi annars vegar verið til ákærða Jóns Ásgeirs, 7.048.346 krónur, og hins vegar Fjárfestingafélagsins Gaums hf., 143.068.986 krónur. Í 35. lið ákærunnar voru sams konar sakir bornar á ákærða Jón Ásgeir og Tryggva, svo og ákærðu Stefán Hilmar og Önnu sem löggilta endurskoðendur Baugs hf., vegna ársreiknings félagsins fyrir árið 2000, en í lok þess hafi staðið úti lán til ákærða Jóns Ásgeirs, 19.537.582 krónur, Fjárfestingafélagsins Gaums ehf., 121.443.932 krónur, og Fjárfars ehf., 113.602.581 króna. Loks voru ákærðu Jón Ásgeir, Stefán Hilmar og Anna ásamt Tryggva sökuð í 36. lið ákærunnar um sams konar brot varðandi ársreikning Baugs hf. fyrir reikningsárið 2001, sem hafi lokið 28. febrúar 2002, en þann dag hafi lán til ákærða Jóns Ásgeirs numið 67.218.559 krónum, ákærðu Kristínar 3.388.833 krónum, Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. 244.347.997 krónum og Fjárfars ehf. 168.883.376 krónum. Fyrir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms tóku gildi lög nr. 3/2006 um ársreikninga, sem leystu af hólmi áðurnefnd lög nr. 144/1994. Ákvæði 2. töluliðar 1. mgr. 83. gr., 82. gr., 43. gr. og 36. gr. eldri laganna, sem vísað var til í ákæru, eiga sér samsvörun í 2. tölulið 1. mgr. 121. gr., 120. gr., 53. gr. og 43. gr. yngri laganna, en 2. mgr. 83. gr. eldri laganna, sem vísað var sérstaklega til varðandi ætluð brot Tryggva, og 2. og 3. töluliður 85. gr. þeirra, sem ætluð brot ákærðu Stefáns Hilmars og Önnu töldust meðal annars varða við, voru sama efnis og núgildandi ákvæði 2. mgr. 121. gr. og 2. og 3. töluliðar 123. gr. laga nr. 3/2006.

Í 37. og 38. lið ákærunnar var sökum beint að ákærða Jóni Ásgeiri einum, í 39. lið Jóhannesi Jónssyni og í 40. lið ákærðu Kristínu um ?tollsvik og rangfærslu skjala? í tengslum við innflutning á fjórum tilgreindum bifreiðum. Af ástæðum, sem nánar verður vikið að síðar, þarf ekki að rekja hér efni 37. og 39. liðar ákærunnar. Í 38. liðnum var ákærði Jón Ásgeir sakaður um að hafa við innflutning bifreiðarinnar OD 090 í nafni Baugs hf. gefið tollstjóranum í Reykjavík rangar upplýsingar í aðflutningsskýrslu 3. desember 1999 og lagt fram tilhæfulausan reikning frá 23. september sama ár, útgefinn af Nordica Inc. í Miami í Bandaríkjunum, þar sem kaupverð bifreiðarinnar hafi verið tilgreint 27.600 bandaríkjadalir í stað 34.400 dala samkvæmt vörureikningi 29. október 1999 frá Automotores Zona Franca í sömu borg, en fyrrnefndi reikningurinn hafi verið gerður að ósk ákærða af viðskiptafélaga hans, Jóni Gerald Sullenberger. Með þessu hafi ákærði komið sér undan greiðslu nánar tiltekinna aðflutningsgjalda að fjárhæð samtals 589.129 krónur. Í 40. lið ákærunnar var ákærðu Kristínu gefið að sök að hafa við innflutning á bifreiðinni KY 835 gefið rangar upplýsingar í aðflutningsskýrslu 30. maí 2000 til tollstjórans í Reykjavík og lagt fram tilhæfulausan reikning 11. apríl sama ár frá áðurnefndu félagi, Nordica Inc., þar sem kaupverð bifreiðarinnar hafi verið tilgreint 46.780 bandaríkjadalir í stað 58.200 dala samkvæmt vörureikningi 17. maí 2000 frá Automotores Zona Franca, en fyrrgreinda reikninginn hafi Jón Gerald Sullenberger gefið út að ósk ákærðu. Hafi hún með þessu komið sér undan greiðslu aðflutningsgjalda að fjárhæð alls 697.237 krónur. Í ákærunni voru þessi ætluðu brot ákærðu talin varða við 2. mgr., sbr. 1. mgr. 126. gr. þágildandi tollalaga nr. 55/1987, og 2. mgr. 158. gr. almennra hegningarlaga. Fyrir uppkvaðningu héraðsdóms höfðu fyrrnefndu lögin fallið niður við gildistöku tollalaga nr. 88/2005, en ákvæði eldri laganna, sem vísað var til í ákæru, eiga sér nú samsvörun í 1. og 4. mgr. 172. gr. yngri laganna að því er ákæruefnin varðar. Við aðalmeðferð málsins í héraði var af hálfu ákæruvaldsins lögð fram bókun um lækkun á þeim fjárhæðum, sem greindi meðal annars í 38. og 40. lið ákærunnar og áður er getið. Að því er fyrrnefnda liðinn varðar var samkvæmt bókuninni lagt til grundvallar að rétt verð bifreiðarinnar, sem þar um ræddi, hafi verið 33.000 bandaríkjadalir og aðflutningsgjöld því orðið 480.605 krónum lægri en efni hafi verið til. Í síðarnefnda liðnum hafi rétt verð bifreiðarinnar átt að vera 42.000 bandaríkjadalir og gjöldin því orðið 439.185 krónum of lág. Af hálfu ákæruvaldsins er því borið við að ritvillur hafi verið gerðar í bókuninni varðandi síðargreindu bifreiðina og hafi þær verið leiðréttar við munnlegan flutning málsins í héraði, en þess þó ekki getið í hinum áfrýjaða dómi. Þessar villur hafi verið augljósar, meðal annars með því að bókuninni hafi fylgt nýir útreikningar á aðflutningsgjöldum, sem beri með sér að ætlunin hafi verið að tilgreina sem verð bifreiðarinnar 56.800 bandaríkjadali og mismun aðflutningsgjalda 611.761 krónu.

Með hinum áfrýjaða dómi voru ákærðu ásamt Jóhannesi Jónssyni og Tryggva Jónssyni sýknuð af kröfum ákæruvaldsins. Af hálfu þess er unað við niðurstöðu héraðsdóms um sýknu þeirra Jóhannesar og Tryggva, svo og um sýknu ákærða Jóns Ásgeirs af sökum samkvæmt 37. lið ákærunnar. Fyrir Hæstarétti snýr málið því að 33., 34., 35., 36., 38. og 40. lið hennar og beinast sakir samkvæmt fjórum fyrstnefndu liðunum nú að ákærðu Jóni Ásgeiri og Stefáni Hilmari, svo og að ákærðu Önnu í 35. og 36. lið. Auk þessa hefur af hálfu ákæruvaldsins verið lýst yfir fyrir Hæstarétti að fallið sé frá þeim sakargiftum á hendur ákærða Jóni Ásgeiri samkvæmt 33. til 36. lið ákærunnar að hann hafi sett fram rangar og villandi sérgreiningar á liðnum skammtímakröfur í efnahagsreikningum og ekki getið þeirra lána, sem um ræðir í þessum liðum, í skýrslu stjórnar í ársreikningum Baugs hf. fyrir árin 1998 til 2001. Samkvæmt greinargerð ríkissaksóknara fyrir Hæstarétti er því ákærða Jóni Ásgeiri í þessum liðum ákærunnar ?nú einungis gefið að sök að hafa látið rangar og villandi skýringar fylgja ársreikningi Baugs hf. fyrir árin 1998-2001 með því að láta hjá líða að tilgreina þar fjárhæðir lána sem veitt voru til hluthafa, stjórnarmanna, forstjóra og aðila þeim nátengdum, sundurliðað ásamt upplýsingum um vexti, greiðslukjör og aðra helstu skilmála?, en fjárhæðir og skuldarar séu þeir sömu og fram komu í ákærunni og áður var getið. Þessu til samræmis er ákærða Stefáni Hilmari nú gefið að sök einum samkvæmt 33. og 34. lið ákærunnar og með ákærðu Önnu samkvæmt 35. og 36. lið að hafa án fyrirvara áritað ársreikninga Baugs hf., sem um ræðir í hverjum lið, þótt þeim hafi fylgt rangar og villandi skýringar að framangreindu leyti. Sakir á hendur ákærða Jóni Ásgeiri samkvæmt 38. lið og ákærðu Kristínu samkvæmt 40. lið ákærunnar eru fyrir Hæstarétti þær sömu og endanlega voru bornar fram af hálfu ákæruvaldsins í héraði, að teknu tilliti til áðurgreindrar leiðréttingar á ritvillum í bókun varðandi síðastnefnda liðinn.

Samkvæmt framansögðu hefur af hálfu ákæruvaldsins verið dregið úr sakargiftum á hendur ákærðu frá því, sem upphaflega greindi í 33. til 36., 38. og 40. lið ákæru, auk þess sem fallið hefur verið fyrir Hæstarétti frá sökum á hendur Tryggva Jónssyni samkvæmt fjórum fyrstnefndu liðunum. Þótt þessar breytingar hafi verið gerðar eru engin tvímæli um hvaða sakir eru nú bornar á hvern ákærðu og rúmast þær allar innan ákærunnar með þeim breytingum, sem gerðar voru á henni undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi. Fyrrgreinda dómkröfu ríkissaksóknara fyrir Hæstarétti um sakfellingu ?samkvæmt ákæru útgefinni 1. júlí 2005 hvað varðar ákæruliði 33 til 36, 38 og 40? verður að skýra til samræmis við það, sem hér hefur verið greint.

II.

Með áðurgreindum breytingum á málatilbúnaði ákæruvaldsins er ákærði Jón Ásgeir nú borinn sökum samkvæmt 33. til 36. lið ákæru um að hafa brotið gegn 43., sbr. 36. gr. þágildandi laga nr. 144/1994, þannig að refsingu varði samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 121. gr., sbr. 120. gr. laga nr. 3/2006, með því að hafa í starfi forstjóra Baugs hf. látið rangar og villandi skýringar fylgja ársreikningum félagsins 1998 til 2001, sem falist hafi í því að láta hjá líða að tilgreina nánar tiltekna fjárhæð lána, sem hafi öll þessi ár verið veitt honum sjálfum og Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf., svo og Fjárfari ehf. tvö síðustu reikningsárin og ákærðu Kristínu á því síðasta. Í málinu hafa ekki verið bornar brigður á að ákærði Jón Ásgeir hafi þrátt fyrir starfsheiti sitt hjá Baugi hf. borið ásamt stjórn félagsins þá skyldu, sem 1. mgr. 3. gr. laga nr. 144/1994 lagði á stjórn og framkvæmdastjóra félags til að semja á hverju reikningsári ársreikning, sem hefði meðal annars að geyma rekstrarreikning, efnahagsreikning og skýringar. Í 36. gr. síðastnefndra laga var mælt fyrir um að í slíkum skýringum í ársreikningi skyldi að minnsta kosti veita upplýsingar um þau atriði, sem getið var í 37. gr. til 51. gr. laganna. Samkvæmt þessu bar meðal annars vegna 1. mgr. 43. gr. laganna að tilgreina í skýringunum fjárhæð lána, svo og veðsetningar, ábyrgðir og tryggingar, sem veitt höfðu verið félagsaðilum eða stjórnendum félags eða móðurfélags þess vegna tengsla þeirra við félögin, sundurliðað ásamt upplýsingum um vexti, greiðslukjör og aðra helstu skilmála, en með félagsaðilum var átt við hluthafa að því er hlutafélög varðaði, sbr. 2. tölulið 2. mgr. 1. gr. laganna. Í 2. mgr. 43. gr. þeirra var jafnframt tiltekið að þessi fyrirmæli ættu einnig við gagnvart einstaklingum, sem væru nátengdir þeim sem áður var getið.

Í framangreindu ákvæði 43. gr. laga nr. 144/1994, sem ákærði Jón Ásgeir er sakaður um að hafa brotið gegn, var boðið að tilgreina skyldi í skýringum við ársreikning fjárhæð nánar tiltekinna lána. Við skýringu á merkingu síðastgreinds orðs er óhjákvæmilegt að taka mið af því að í málinu reynir á hana eingöngu við úrlausn um hvort ákærði hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi. Þessu orði verður því ekki gefið hér víðtækara inntak en leiðir af hljóðan þess og getur þar engu breytt hvort ákvæðinu kunni að hafa verið ætlað annað markmið en þjónað yrði með slíkri skýringu, svo sem meðal annars mætti álykta af lögskýringargögnum við það, þar sem sagði að það væri í samræmi við fyrirmæli 13. töluliðar 1. mgr. 43. gr. tilskipunar ráðs Evrópubandalaganna nr. 78/660/EB. Að þessu virtu og með því að orðalagi 1. mgr. 43. gr. laga nr. 144/1994 var hagað á þennan veg, en hvorki rætt þar um kröfur á hendur félagsaðilum eða stjórnendum félags né inneign hjá þeim, svo sem löggjafanum hefði verið í lófa lagið ef ætlunin hefði verið að gefa ákvæðinu slíkt inntak, verður að beita þeirri orðskýringu að félag teljist hafa veitt lán í þessum skilningi þegar það hefur greitt félagsaðila, stjórnanda eða einstaklingi nátengdum þeim peningaupphæð eða ígildi hennar eða látið af hendi til þeirra önnur fjárhagsleg verðmæti með áskilnaði um endurgreiðslu peningaupphæðarinnar eða ígildis hennar eða skil á verðmætunum. Að jöfnu við þetta má og leggja ef félag hefur með sama áskilnaði innt af hendi peningagreiðslu eða ígildi hennar til þriðja manns eða afhent honum önnur fjárhagsleg verðmæti til að efna skyldu, sem hvílt hefur gagnvart honum á félagsaðila, stjórnanda félags eða einstaklingi þeim nákomnum, en með því má líta svo á að lán hafi verið veitt þeim, sem greiðsla eða afhending var til hagsbóta fyrir. Engin efni eru til að þrengja þetta hugtak í 1. mgr. 43. gr. laga nr. 144/1994 með því að binda það við þau tilvik ein, þar sem lán í þessum skilningi hefur verið veitt með formlegri ráðstöfun eða skilmálar þess hafa verið sérstaklega ákveðnir, enda standa ekki haldbær rök til slíkrar skýringar, sem á sér enga stoð í orðalagi ákvæðisins.

Auk þess, sem að framan greinir, verður við skýringu á 1. mgr. 43. gr. laga nr. 144/1994 að líta til þess að skyldan til að veita upplýsingar í skýringum við ársreikning, sem þar var mælt fyrir um, tók ekki til allra lána, sem veitt voru félagsaðilum, stjórnendum félags eða einstaklingum þeim nátengdum, heldur eingöngu þeirra lána, sem slíkum aðilum voru veitt vegna tengsla þeirra við félagið. Í 2. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 696/1996 um framsetningu og innihald ársreikninga og samstæðureikninga, sem sett var með heimild í 89. gr. laga nr. 144/1994, var mælt nánar fyrir um síðastgreint atriði þannig að átt væri við tengsl, sem beinlínis stöfuðu af störfum þessara aðila fyrir félag eða eignarhaldi að því, en ekki regluleg viðskipti þeirra, sem byggðust á sama grunni og viðskipti annarra ótengdra viðskiptavina. Þá verður jafnframt að gæta að því að samkvæmt 3. mgr. 26. gr. reglugerðarinnar átti sú sundurliðun á fjárhæð lána, sem kveðið var á um í 1. mgr. 43. gr. laga nr. 144/1994, ekki að miðast við einstaka menn, heldur tegund fyrirgreiðslu eða samanlagða fyrirgreiðslu til félagsaðila, stjórnenda félags og stjórnenda móðurfélags þess, svo sem þar var að orði komist.

Eins og áður kom fram eru sakargiftir á hendur ákærða Jóni Ásgeiri afmarkaðar þannig í 33. lið ákæru að ekki hafi verið getið í skýringum við ársreikning Baugs hf. fyrir árið 1998 um lán með nánar tilgreindum fjárhæðum, sem félagið hafi veitt honum og Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf. Sakir í 34., 35. og 36. lið ákærunnar snúa á hliðstæðan hátt að ársreikningum Baugs hf. fyrir reikningsárin 1999, 2000 og 2001 og lánum til hinna sömu, en að auki varðandi ársreikning 2000 að lánum til Fjárfars ehf. og ársreikning 2001 að lánum til þess félags og ákærðu Kristínar, allt með nánar tilteknum fjárhæðum hvert ár varðandi hvern skuldara fyrir sig. Fjárhæðirnar í þessum liðum ákærunnar eru ekki raktar þar til tiltekinna ráðstafana, heldur er í öllum tilvikum um að ræða mismun Baugi hf. til eignar, sem stóð í lok hvers reikningsárs í bókhaldi félagsins á viðskiptareikningum ákærða Jóns Ásgeirs og Fjárfestingafélagsins Gaums ehf., svo og eftir atvikum viðskiptareikningum Fjárfars ehf. og ákærðu Kristínar. Samkvæmt málatilbúnaði ákæruvaldsins hefur þessi afmörkun á sakarefnum helgast af því að af hálfu þess hafi verið litið svo á að hugtakið lán í 43. gr. laga nr. 144/1994 hafi tekið til heildarfjárhæðar krafna Baugs hf. á hendur ákærðu Jóni Ásgeiri og Kristínu og félögunum tveimur í lok hvers reikningsárs, án þess að frekar yrði að huga að því hvernig kröfurnar hefðu myndast. Samkvæmt því, sem áður segir, verður slíkri skýringu á hugtakinu lán ekki beitt við úrlausn málsins.

Í greinargerð ríkissaksóknara fyrir Hæstarétti er vikið að því að þótt komist yrði að þeirri niðurstöðu að ?eitthvað af þeim lánum sem mynduðu þá skuldastöðu við Baug hf. sem hér um ræðir hafi ekki þurft að tilgreina í skýringum ársreiknings?, þá sé á því byggt að sakfella eigi ákærða Jón Ásgeir fyrir að tilgreina ekki lánveitingar, sem ?Hæstiréttur telur sannað? að átt hafi undir 43. gr. laga nr. 144/1994. Vegna þessa er til þess að líta að af svokölluðum hreyfingarlistum úr bókhaldi Baugs hf., sem liggja fyrir í málinu, er ljóst að fjárhæðirnar, sem tilgreindar eru í ákæru varðandi hvern skuldara fyrir sig, hafa myndast sem mismunur á færslum til eignar annars vegar og skuldar hins vegar á hverjum viðskiptareikningi. Fjöldi bókhaldsfærslna hvert ár og á hverjum þessara fjögurra viðskiptareikninga er mjög breytilegur eða allt frá 2 til 114 á einu ári og eru tilefni þeirra margvísleg. Færslurnar, sem mynda mismuninn samkvæmt 33. til 36. lið ákærunnar á þessum viðskiptareikningum á fjórum reikningsárum, eru samtals 430, þar af 275 færslur Baugi hf. til eignar á alls 1.428.472.287 krónum og 155 færslur félaginu til skuldar á 944.633.522 krónum. Á viðskiptareikningunum eru Baugi hf. færðar tilteknar fjárhæðir til eignar í fjölmörgum tilvikum, sem eftir fyrirliggjandi gögnum geta bersýnilega ekki talist hafa komið til með veitingu láns í áðurgreindum skilningi 1. mgr. 43. gr. laga nr. 144/1994, meðal annars á grundvelli reikninga og kaupsamninga, þar sem hönd hefur ekki selt hendi, vegna vöruúttekta og með greiðslu krafna á hendur Baugi hf., sem félagið virðist hafa talið sig eiga framkröfur fyrir. Eftir standa margar færslur, sem framlögð bókhaldsgögn gefa ekki án nánari skýringa fullnægjandi vísbendingar um hvort stafað hafi af lánveitingum í þessum skilningi, en að auki nokkur fjöldi, sem allar líkur virðast á að skipa ætti þannig í flokk, svo sem í tilvikum, þar sem færslur hafa verið reistar á skriflegum viðurkenningum fyrir lántöku eða átt rætur að rekja til greiðslna Baugs hf. til þriðja manns á kröfum, sem hvíldu ekki á félaginu heldur einhverjum þessara viðskiptamanna. Inn á viðskiptareikningana koma sem fyrr segir færslur Baugi hf. til skuldar og þar með til lækkunar á kröfum félagsins á hendur þessum viðskiptamönnum. Sumum þessum færslum má hæglega jafna við samsvarandi færslur, sem áður hafa verið gerðar félaginu til eignar, svo sem þegar tilteknir reikningar hafa verið greiddir með fullri fjárhæð, en við aðrar getur þetta á hinn bóginn ekki átt. Um þau tilvik liggur ekki ljóst fyrir af hendi ákæruvaldsins hvort færslur ættu að koma til lækkunar á kröfum Baugs hf. á grundvelli hugsanlegra lánveitinga eða öðrum kröfum samkvæmt viðskiptareikningunum. Álitaefni af þessum meiði eru mismörg eftir tímabilum og milli einstakra viðskiptareikninga, en fram hjá því verður ekki litið að vegna áðurgreinds ákvæðis 3. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 696/1996 verða einstakir skuldarar ekki aðgreindir í þessum efnum, heldur ber að skoða þá þannig að þeir myndi eina heild innan hvers árs. Auk alls þessa skiptir þó mestu að við munnlega sönnunarfærslu fyrir héraðsdómi voru ákærðu Jón Ásgeir, Stefán Hilmar og Anna, sem 33. til 36. liður ákærunnar snúa að, í raun ekkert spurð um einstakar færslur á viðskiptareikningunum og ástæður þess að þær hafi ekki hver fyrir sig eða í afmörkuðum flokkum tilvika kallað á skýringar í ársreikningum vegna ákvæða 43. gr. laga nr. 144/1994. Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi var málið ekki flutt í héraði um einstakar færslur í þessu sambandi, en þótt af hálfu ákæruvaldsins hafi að nokkru verið leitast við að gera það við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti hafði ekki fyrr við meðferð málsins fyrir dómi gefist tilefni fyrir ákærðu til verjast sökum á þeim grunni, þrátt fyrir að um þetta hafi verið fjallað að nokkru marki við rannsókn lögreglunnar. Vegna þess háttar, sem hafður hefur verið á saksókn að þessu leyti, hefur ákærðu ekki réttilega gefist kostur á að koma fram skýringum og afstöðu sinni til þess hvort einstakar færslur á viðskiptareikningunum, sem hér um ræðir, varði lán í skilningi 43. gr. laga nr. 144/1994 og eftir atvikum hvort einhverjar þeirra geti hafa verið undanþegnar tilgreiningarskyldu samkvæmt ákvæðinu vegna áðurnefndra fyrirmæla 2. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 696/1996. Að þessu virtu er óhjákvæmilegt að staðfesta niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um sýknu ákærða Jóns Ásgeirs af þeim sökum, sem hann er borinn í 33. til 36. lið ákæru. Af því leiðir sjálfkrafa að staðfest verður niðurstaða héraðsdóms um sýknu ákærðu Stefáns Hilmars og Önnu af kröfum ákæruvaldsins.

III.

Með 38. lið ákæru er ákærði Jón Ásgeir sem fyrr greinir sakaður um að hafa brotið gegn 1. mgr. og 4. mgr. 172. gr. laga nr. 88/2005, sbr. áður 1. mgr. og 2. mgr. 126. gr. laga nr. 55/1987, og 2. mgr. 158. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa við innflutning bifreiðarinnar OD 090 í nafni Baugs hf. gefið tollstjóranum í Reykjavík rangar upplýsingar um verð hennar í aðflutningsskýrslu 3. desember 1999 og lagt fram því til stuðnings tilhæfulausan reikning að fjárhæð 27.600 bandaríkjadalir, sem gerður hafi verið að beiðni hans af Jóni Gerald Sullenberger 23. september sama ár í nafni Nordica Inc. Eins og sakargiftum var breytt undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi er við það miðað af hálfu ákæruvaldsins að kaupverð bifreiðarinnar hafi í raun numið 33.000 bandaríkjadölum, en í þeim efnum er stuðst við reikning, sem hermt er að félagið Automotores Zona Franca hafi gert Nordica Inc. vegna bifreiðarinnar. Til samræmis við þetta er ákærði Jón Ásgeir borinn sökum um að hafa komið sér undan greiðslu aðflutningsgjalda að fjárhæð samtals 480.605 krónur.

Eins og nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi liggur fyrir í málinu reikningur 25. september 1999 frá Nordica Inc. á hendur Baugi hf. fyrir verði nánar tiltekinnar bifreiðar, 27.600 bandaríkjadölum, en við skráningu hér á landi fékk hún númerið OD 090. Fjárhæð reikningsins hafði Baugur hf. greitt Nordica Inc. með sem svaraði 2.001.874 krónum degi fyrir dagsetningu hans í samræmi við óskir, sem fyrrnefndur Jón Gerald setti fram í símbréfi til nafngreinds starfsmanns Baugs hf. 23. sama mánaðar. Þá liggur fyrir reikningur 30. september 1999 frá Nordica Inc. til Baugs hf. að fjárhæð 7.600 bandaríkjadalir, en samkvæmt texta hans var hann um þóknun fyrir nánar tilteknar markaðsrannsóknir í Flórida í Bandaríkjunum á tímabilinu frá 1. ágúst til 30. september 1999. Fjárhæð þessa reiknings greiddi Baugur hf. einnig degi fyrir útgáfudag hans og innti af hendi í því skyni 550.250 krónur. Samkvæmt framburði Jóns Geralds var samanlögð fjárhæð þessara tveggja reikninga í raun verð bifreiðarinnar, sem hann hafi tekið að sér að útvega í Bandaríkjunum að beiðni ákærða Jóns Ásgeirs og senda hingað til lands, en ákærði hafi óskað eftir því að verðinu yrði skipt á þennan hátt á tvo reikninga. Ákærði bar fyrir dómi að Baugur hf. hafi keypt bifreiðina af Nordica Inc. og selt hana síðan Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf., en hún hafi verið fengin til afnota fyrir fyrrverandi eiginkonu ákærða. Neitaði ákærði að hafa átt orðaskipti við Jón Gerald um gerð reikninga fyrir bifreiðinni, sem hann minnti að Aðföng hf., dótturfélag Baugs hf., hafi séð um að flytja til landsins. Sérstaklega aðspurður um reikning Nordica Inc. að fjárhæð 7.600 bandaríkjadalir sagði ákærði að hann hafi verið fyrir þóknun til Jóns Geralds ?vegna ýmiss tilstands, annars vegar að útvega bílinn og eitthvað fleira sem var þar á ferðinni.?

Gegn neitun ákærða er ósannað að hann hafi óskað eftir því að gerðir yrðu á framangreindan hátt tveir reikningar fyrir verði bifreiðarinnar, sem hér um ræðir. Til þess verður á hinn bóginn að líta að af gögnum málsins verður séð að fjárhæðin, sem varið var til greiðslu síðastnefnds reiknings Nordica Inc., 550.250 krónur, var færð 29. september 1999 til gjalda í bókhaldi Baugs hf. á tiltekinn reikningslið með þeirri skýringu að hún væri vegna aðkeyptra markaðsupplýsinga. Með bókhaldsfærslu sama dag var þessi fjárhæð tekin af þeim reikningslið og færð þess í stað til eignar á öðrum, sem bar heitið ?bifreiðar án vsk?, en þar hafði áður verið færð fjárhæðin, sem greidd var vegna fyrrnefnds reiknings Nordica Inc. frá 25. september 1999, 2.001.874 krónur. Þáverandi starfsmaður Baugs hf., sem gerði þessar breytingarfærslur, kvaðst í vitnaskýrslu fyrir héraðsdómi ekki minnast tilefnis þeirra eða við hvaða upplýsingar hafi verið stuðst. Eftir komu bifreiðarinnar til landsins greiddi Baugur hf. 17. desember 1999 vegna aðflutningsgjalda og annars kostnaðar samtals 2.464.352 krónur, sem einnig voru færðar á sama reikningslið. Baugur hf. seldi síðan Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf. bifreiðina og var gerður reikningur 20. janúar 2000 fyrir verði hennar, 5.016.476 krónum, en þá samtölu mynda jafnframt þær þrjár fjárhæðir, sem næstar voru nefndar hér á undan. Að virtum þessum gerðum innflytjanda bifreiðarinnar, Baugs hf., fær ekki annað staðist en að gengið hafi verið út frá því að verið væri að greiða Nordica Inc. fyrir hana með samanlagðri fjárhæð umræddra tveggja reikninga, 35.200 bandaríkjadölum. Á framlögðu eintaki af reikningi Nordica Inc. 30. september 1999 fyrir 7.600 bandaríkjadölum, sem mun vera komið úr bókhaldsgögnum Baugs hf., sést að hann hefur verið áritaður um samþykki og staðfesti ákærði Jón Ásgeir í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi að það hafi hann gert. Samkvæmt því og í ljósi fyrrgreinds framburðar hans um hvað búið hafi að baki þessum reikningi getur ekki farið á milli mála að honum hafi verið kunnugt í það minnsta að greiðslur vegna bifreiðarinnar hafi numið hærri fjárhæð en þeim 27.600 bandaríkjadölum, sem tilgreindir voru í reikningi Nordica Inc. frá 25. september 1999.

Af gögnum málsins virðist mega ráða að bifreiðin OD 090 hafi komið til landsins með skipi í nóvember 1999, en aðflutningsskýrsla vegna hennar var afhent tollstjóranum í Reykjavík 7. desember sama ár. Í skýrslunni var tilgreint að heildarverð reiknings fyrir bifreiðinni hafi verið 27.600 bandaríkjadalir. Samkvæmt skýrslunni var innflytjandi bifreiðarinnar Baugur hf. og umboðsmaður hans Aðföng hf. Skýrslan var undirrituð af þáverandi starfsmanni síðarnefnda félagsins. Í vitnaskýrslu fyrir héraðsdómi kannaðist starfsmaðurinn við aðflutningsskýrsluna, sem hann kvað yfirmenn í Aðföngum hf. hafa falið sér að gera, en ekki var hann inntur frekar eftir hverjir þeir hefðu verið. Aðspurður um gögn, sem fylgdu skýrslunni, skýrði hann almennt svo frá að flutningstilkynningar hafi borist í símbréfum eða tölvupósti, en þegar þær væru komnar hefði hann leitað að reikningum, sem yfirleitt hafi verið í pósti til Aðfanga hf. Fyrir héraðsdómi kvaðst ákærði Jón Ásgeir ekkert hafa skipt sér af innflutningi þessarar bifreiðar og ekki vita hver hafi afhent gögn vegna hennar til Aðfanga hf. Þótt lagt sé til grundvallar samkvæmt áðursögðu að ákærða hafi verið kunnugt um að greitt hafi verið meira vegna bifreiðarinnar en nam fjárhæð reiknings Nordica Inc. fyrir 27.600 bandaríkjadölum hefur gegn eindreginni neitun hans ekkert komið fram til staðfestingar því að hann hafi ákveðið eða lagt á ráðin um hvaða gögn yrðu afhent Aðföngum hf. til að gera aðflutningsskýrslu eða skipt sér að öðru leyti af atriðum, sem vörðuðu þá skýrslugerð. Í þessu sambandi verður ekki horft fram hjá því að báðir reikningarnir frá Nordica Inc. höfðu verið greiddir undir lok september 1999, rúmum tveimur mánuðum áður en aðflutningsskýrslan var gerð. Með því að annað hefur ekki verið upplýst verður að ætla að leita hafi þurft upplýsinga og skjala til að styðja skýrsluna við í bókhaldsgögnum Baugs hf. Þegar hér var komið sögu höfðu þessar greiðslur báðar verið færðar á áðurnefndan reikningslið í bókhaldi Baugs hf., sem virðist hafa verið ætlaður fyrir kostnaðarverð bifreiða, og mátti þetta blasa við þeim, sem kannaði færslur á þeim lið. Ekki hefur verið upplýst fyrir dómi um nánari atvik við sendingu gagna til Aðfanga hf. í sambandi við gerð aðflutningsskýrslunnar og hefur því ekki verið borið við af hálfu ákæruvaldsins að atriði af þeim meiði hafi verið innan verksviðs ákærða Jóns Ásgeirs sem forstjóra Baugs hf. Eins og málið liggur fyrir er ekki unnt að líta svo á að nægilega sé hafið yfir skynsamlegan vafa að mistök annarra starfsmanna félagsins hafi ekki valdið því að ranglega hafi verið staðið að verki þegar gögn voru tekin saman um verð bifreiðarinnar til undirbúnings greiðslu aðflutningsgjalda. Af þessum sökum er ekki sannað að ákærði Jón Ásgeir hafi af ásetningi eða stórfelldu gáleysi komið því til leiðar að Aðföng hf. veitti í umboði Baugs hf. rangar upplýsingar í aðflutningsskýrslunni, sem 38. liður ákærunnar varðar. Verður því að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um sýknu ákærða af þessum sakargiftum.

IV.

Í 40. lið ákæru er ákærða Kristín borin sökum um að hafa brotið gegn 1. mgr. og 4. mgr. 172. gr. laga nr. 88/2005, sbr. áður 1. mgr. og 2. mgr. 126. gr. laga nr. 55/1987, og 2. mgr. 158. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa við innflutning bifreiðarinnar KY 835 gefið tollstjóranum í Reykjavík rangar upplýsingar um verð hennar í aðflutningsskýrslu 30. maí 2000 og lagt fram því til stuðnings tilhæfulausan reikning að fjárhæð 46.780 bandaríkjadalir, sem gerður hafi verið að beiðni ákærðu af Jóni Gerald Sullenberger 11. apríl sama ár í nafni Nordica Inc. Með áðurgreindum breytingum og leiðréttingum, sem gerðar hafa verið á þessum lið ákærunnar, er af hálfu ákæruvaldsins miðað við að kaupverð bifreiðarinnar hafi í raun numið 56.800 bandaríkjadölum, sem fram komi í reikningi Automotores Zona Franca á hendur Nordica Inc. Í samræmi við þetta er ákærða Kristín sökuð um að hafa komið sér undan greiðslu aðflutningsgjalda að fjárhæð samtals 611.761 krónu.

Í málinu liggur fyrir reikningur fyrir tiltekinni bifreið á hendur ákærðu Kristínu frá Nordica Inc. 11. apríl 2000 að fjárhæð 46.780 bandaríkjadalir. Daginn eftir leitaði áðurnefndur Jón Gerald eftir því með símbréfi til ákærðu að hún léti senda þessa fjárhæð inn á tilgreindan bankareikning Nordica Inc. og var það gert degi síðar, en að auki mun um leið hafa verið greiddur reikningur frá sama félagi vegna kaupa föður ákærðu, Jóhannesar Jónssonar, á annarri bifreið, sem um ræddi í 39. lið ákæru. Þá liggur einnig fyrir reikningur frá Nordica Inc. 17. apríl 2000 á hendur Pönnupizzum ehf., en samkvæmt því, sem fram er komið í málinu, mun framkvæmdastjóri þess félags hafa verið þáverandi eiginmaður ákærðu og félagið jafnframt í eigu Fjárfestingafélagsins Gaums ehf., þar sem ákærða var framkvæmdastjóri. Reikningurinn var að fjárhæð 23.970 bandaríkjadalir, en samkvæmt texta hans var þetta umsamin þóknun fyrir ráðgjöf og þjónustu vegna veitingahúsa og umboðslaun. Reikningurinn var greiddur 19. apríl 2000. Samkvæmt framburði Jóns Geralds svaraði samanlögð fjárhæð þessara þriggja reikninga til raunverulegs verðs bifreiðanna tveggja, sem hann hafi tekið að sér að útvega í Bandaríkjunum handa ákærðu og Jóhannesi Jónssyni. Hafi hann skipt verðinu á þrjá reikninga að ósk ákærðu, svo sem séð verði af útprentun af tölvupóstsendingu 10. apríl 2000, sem lögð hefur verið fram í málinu og nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Ákærða hefur ekki kannast við þessa tölvupóstsendingu, sem ummerki voru ekki fundin um í tölvu hennar eða Jóns Geralds við rannsókn málsins. Þá hefur hún heldur ekki kannast við að verð bifreiðarinnar hafi verið annað en þeir 46.780 bandaríkjadalir, sem tilgreindir voru í reikningi Nordica Inc. til hennar, en um reikning sama félags á hendur Pönnupizzum ehf. og viðskiptum að baki honum hafi hún ekki haft vitneskju.

Í hinum áfrýjaða dómi er lýst framlögðum gögnum í þessum þætti málsins, sem varða meðal annars kaup Nordica Inc. á bifreiðunum tveimur af Automotores Zona Franca, verð þeirra í þeim viðskiptum og upplýsingar um þær frá fyrri tímum, en eins og þar kemur fram eru ýmsir annmarkar á þessum gögnum. Jafnframt er í dóminum gerð grein fyrir vitnisburði Jóns Geralds Sullenberger og forráðamanns Automotores Zona Franca, Ivan Gabriel Motta, fyrir héraðsdómi, svo og að ósamræmi hafi verið milli þeirra í vissum atriðum og misræmi í framburði þess fyrrnefnda á mismunandi stigum málsins. Ekki hafa komið fram viðhlítandi gögn um gangverð bifreiðar eins og þeirrar, sem ákærða Kristín fékk senda til landsins, á þeim stað og tíma sem kaupin voru gerð. Þá er þrátt fyrir umfangsmikla sönnunarfærslu óljóst hvað ætla megi að Nordica Inc. kunni að hafa greitt fyrir bifreiðina þegar verið var að útvega hana fyrir ákærðu Kristínu, en hvernig sem litið er til gagna málsins fæst ekki samræmi milli þess, sem á mismunandi stigum hefur verið hermt að kaupverðið hafi numið, og heildarfjárhæðar þeirra þriggja reikninga Nordica Inc., sem áður er lýst. Að þessu athuguðu verður að fallast á með héraðsdómi að gegn eindreginni neitun ákærðu hafi ekki verið færðar nægilegar sönnur fyrir þeim sökum, sem hún er borin í 40. lið ákæru. Niðurstaða héraðsdóms um sýknu ákærðu af kröfum ákæruvaldsins verður því staðfest.

V.

Fyrir Hæstarétti hefur ríkissaksóknari ekki leitað sérstaklega endurskoðunar á ákvæðum héraðsdóms um sakarkostnað. Þau verða því staðfest.

Samkvæmt 166. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála ber að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins úr ríkissjóði. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti var af hálfu ákærðu Önnu lagður fram reikningur 31. mars 2006 að fjárhæð 464.136 krónur frá PricewaterhouseCoopers hf. á hendur lögmannsstofu skipaðs verjanda hennar og þess krafist að útgjöld þessi yrðu felld undir sakarkostnað málsins. Reikningur þessi ber á engan hátt með sér hvernig hann kunni að tengjast máli þessu. Þegar af þeirri ástæðu eru ekki efni til að verða við þessari kröfu. Verður því ekki kveðið á um greiðslu annars sakarkostnaðar fyrir Hæstarétti en málsvarnarlauna skipaðra verjenda ákærðu. Um ákvörðun þeirra launa er þess að geta að verjendur hafa lagt fram yfirlit um fjölda vinnustunda, sem varið hafi verið til málsvarnar fyrir Hæstarétti. Sá stundarfjöldi er í engu samræmi við sakarefni eða umfang málsins. Er fjárhæð málsvarnarlauna ákveðin eins og greint er í dómsorði og er virðisaukaskattur innifalinn í henni.

Það athugast að sakflytjendur, einkum þó verjendur ákærðu, hafa lagt fram í Hæstarétti greinargerðir, sem eru úr hófi langar og hafa að geyma skriflegan málflutning.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Gests Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 1.245.000 krónur, skipaðs verjanda ákærðu Kristínar Jóhannesdóttur, Kristínar Edwald hæstaréttarlögmanns, 498.000 krónur, og skipaðs verjanda ákærðu Stefáns Hilmars Hilmarssonar og Önnu Þórðardóttur, Þórunnar Guðmundsdóttur hæstaréttarlögmanns, 498.000 krónur.