Dómur í Al Thani-málinu í héraðsdómi Reykjavíkur í gær hefur vakið talsverða athygli í erlendum fjölmiðlum. Reuters-fréttastofan og Bloomberg voru á meðal fjölmargra sem fjölluðu báðar um málið strax í gær. Breska ríkisútvarpið ( BBC ) skautar yfir helstu ákæruliði í málinu í dag og veitir því sérstaka athygli hversu há málsvarnarlaunin sakborningar þurfa að greiða verjendum sínum. Eins og VB.is greindi frá í gær nema þau 89 milljónum króna .

Eins og fram hefur komið var Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi í héraðsdómi Reykjavíkur í gær vegna Al Thani-málsins. Sigurður Einarsson hlaut fimm ára dóm, Ólafur Ólafsson hlaut þriggja og hálfs árs dóm og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg, þriggja ára dóm.