Hæstiréttur mun dæma um það í dag eða á morgun hvort Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, munu sitja áfram í gæsluvarðhaldi í tengslum við meint brot sem embætti sérstaks saksóknara hefur til rannsóknar. Venjan er að Hæstiréttur dæmi innan tveggja sólarhringa frá því gögnum var skilað inn í kærumálum eins og þeim sem dómurinn hefur nú á sínu borði. Öllum gögnum í málinu var skilað inn fyrir helgi samkvæmt upplýsingum frá Hæstarétti.

Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir munu dæma í málinu, samkvæmt upplýsingum frá Hæstarétti. Hreiðar Már var úrskurðaður í 12 daga gæsluvarðhald og Magnús í viku. Frá því á föstudag hafa starfsmenn sérstaks saksóknara unnið áfram að rannsókn málsins og m.a. kallað fyrrum samstarfsmenn Hreiðars Más og Magnúsar, þar á meðal Sigurð Einarsson, fyrrverandi stjórnarformann Kaupþings, til yfirheyrslu.

Hreiðar Már og Magnús er í haldi vegna gruns um margvísleg brot. Til rannsóknar eru m.a. grunur um skjalabrot skv. 17. kafla almennra hegningarlaga, auðgunarbrot skv. 26. kafla almennra hegningarlaga,  brot gegn lögum um verðbréfaviðskipti þ.m.t. markaðsmisnotkun og loks brot gegn hlutafélagalögum. Til grundvallar rannsókninni eru kærur frá Fjármálaeftirlitinu og önnur gögn, að því er sérstakur saksóknari, Ólafur Þór Hauksson, hefur upplýst.