Hæstiréttur Íslands ómerkti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir Kára Stefánssyni, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar. Kári var í héraði dæmdur til að greiða verktakafyrirtækinu  Elmax eina milljón króna vegna vinnu á raflögnum í nýbyggingu í hans eigu.

Elmax rukkaði Kára um milljón vegna vinnunnar í húsnæði hans í Þingahverfinu í Kópavogi. Kári taldi reikningar Elmax hafi ekki verið í neinu samræmi við það verk sem unnið var. Taldi Kári að  fjöldi vinnustunda væri langt umfram það sem eðlilegt verði talið miðað við umfang verksins. Þá hélt Kári því fram að Elmax hefði ekki lokið verkinu eða skilað því af sér með fullnægjandi hætti. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Kára til greiðslu reikningsins.

Kári áfrýjaði til Hæstaréttar sem taldi að í málinu væri deilt um málsástæður sem sérkunnáttu þyrfti til að leysa úr. Héraðsdómara hafi borið að kveðja til sérfróða meðdómsmenn sem hafa slíka kunnáttu til að taka sæti í dómi. Þar sem það hafi ekki verið gert var dómurinn ómerktur og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju.