Hæstiréttur hafnaði í miðri viku beiðni Ólafs Björnssonar, eiganda Dalsness, um leyfi til áfrýjunar til réttarins. Niðurstaðan þýðir því að dómur Landsréttar í máli hans gegn ríkinu stendur.

Sagt var frá málinu í Viðskiptablaðinu í október 2019. Í málinu hafði Ólafur krafið ríkið um 64 milljónir króna sem honum hafði verið gert að greiða í viðbótarauðlegðarskatt. Málið teygir anga sína aftur til ársins 2013 en þá skilaði Dalsnes skattframtali og gerði grein fyrir eignarhlutum í öðrum félögum í samræmi við leiðbeiningar Skattsins. Seinna meir kom hins vegar í ljós að leiðbeiningar Skattsins höfðu verið rangar og rétt framtalsaðferð fól í sér að skattalegt eigið fé hækkaði um 1,1 milljarð króna.

Slíkt hafði engin áhrif á skattlagningu félagsins en hækkaði aftur á móti skattstofn eigandans til viðbótarauðlegðarskatts. Skatturinn endurákvarðaði álagningu á hann árið 2018, það er um fjórum árum eftir að gjaldárið 2014 hafði runnið sitt skeið. Taldi Ólafur að slíkt gengi ekki, sex ára regla tekjuskattslaganna ætti ekki við þar sem öll nauðsynleg gögn hefðu legið fyrir og leiðbeiningum Skattsins hefði verið fylgt. Þess í stað ætti tveggja ára regla laganna við og tími til endurákvörðunar hefði því runnið sitt skeið.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að nauðsynleg skjöl hefði vantað þar sem ranglega hefði verið talið fram í upphafi. Af þeim sökum hefði sex ára reglan átt við. Gilti þá einu þótt félagið hefði talið fram í samræmi við upphaflegar leiðbeiningar Skattsins. Landsréttur staðfesti dóminn með vísan til forsendna hans.

Beiðni um áfrýjun til Hæstaréttar var byggð á því að um mikilvægt væri að fá dóm réttarins um hvaða áhrif handvömm skattyfirvalda á að hafa á framtal gjaldanda. Eigandi Dalsness hefði ekki getað komið andmælum að þegar skattalegt eigið fé þess var hækkað og máli félagsins sjálfs hafði verið vísað frá dómi þar sem það hafði ekki lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr málinu.

„Það sé mikilvægt að fá afdráttarlaust fordæmi Hæstaréttar um það hvort skattgreiðandi skuli njóta andmælaréttar þegar skattyfirvöld breyti framtali þriðja aðila í þeim eina tilgangi að hækka skattstofn skattgreiðanda. [Slík] málsmeðferð fái ekki staðist óskráðan andmælarétt í málum sem varða verulega fjárhagslega hagsmuni einstaklinga,“ sagði í leyfisbeiðninni.

Að mati Hæstaréttar var ekki unnt að fallast á að dómur í málinu kynni að hafa fordæmisgildi og þá var ekki talið að 64 milljónir króna nægðu til að um sérstaklega mikilvæga hagsmuni væri að ræða. Þá væri dómur Landsréttar hvorki rangur að formi né efni til og leyst hefði verið úr málsástæðum með fullnægjandi hætti. Var beiðninni því hafnað.