Botn hefur fengist í mál Sigmars Vilhjálmssonar gegn Stemmu ehf., félagi Skúla Gunnars Sigfússonar, oft kenndum við Subway, en dómur Landsréttar í því stendur. Þetta felst í synjun Hæstaréttar á því að veita áfrýjunarleyfi í málinu.

Sigmar og félag hans, Sjarmur og Garmur ehf., stefndu Stemmu á haustmánuðum 2016. Dómkrafa málsins hljóðaði upp á að ógilt yrði ákvörðun hluthafafundar Stemmu þar sem samþykkt var að selja lóðarréttindi Austurvegs 12 og 14 á Hvolsvelli til Fox ehf.

Stemma var upphaflega stofnað af Sigmari og Skúla til að opna sýningu um eldgosið í Eyjafjallajökli en hugmyndin síðar vaxið og orðið að þjónustumiðstöð fyrir ferðaþjónustu á Suðurlandi. Viðskiptasamband þeirra súrnaði síðan í byrjun árs 2015.

Héraðsdómur felldi ákvörðunina úr gildi sumarið 2018 og Landsréttur felldi ákvörðunina úr gildi að hluta til. Með dómi Hæstaréttar í sumar var dómur Landsréttar felldur úr gildi þar sem málið hefði verið dæmt á röngum grundvelli þar sem engin krafa hefði komið frá málsaðilum um að fella ákvörðunina úr gildi að hluta. Í október var kveðinn upp dómur í Landsrétti á ný og var nú kveðinn upp sýknudómur þar sem Sigmar og félag hans hefðu ekki náð að sýna fram á að ákvörðunin um söluna hefði verið til þess fallin að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna.

Í leyfisbeiðninni var farið fram á að Hæstiréttur tæki málið fyrir þar sem aðeins hefði reynt á minnihlutavernd hlutafélagalaganna í örfáum dómum réttarins. Niðurstaða Landsréttar fæli í sér ótækt fordæmi hvað minnihlutaverndina varðar og réttaróvissa myndi skapast um hvað teldist ótilhlýðileiki. Dómur gæti einnig haft fordæmisgildi um sönnunargildi matsgerða og töku viðskiptalegra ákvarðana.

Hæstiréttur hafnaði þessum rökum og taldi að málið gæti ekki haft verulegt almennt gildi. Þá væri hvorki að sjá að dómur Landsréttar hefði verið bersýnilega rangur að formi eða efni eða að niðurstaða málsins varðaði sérstaklega mikilvæga hagsmuni Sigmars og félags hans. Dómur Landsréttar stendur því óhaggaður.