Yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) kveður nú klukkan tíu upp dóm í máli Guðmundar Andra Ástráðssonar gegn íslenska ríkinu. Um er að ræða endanlegan dóm í máli sem alla jafna hefur verið kennt við Landsrétt.

Í málinu er deilt um það hvort skipan Landsréttar á einu bretti hafi brotið gegn ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu um að dómstól sé komið á fót með lögum eða í samræmi við lög. MDE hafði áður komist að þeirri niðurstöðu, það var í mars í fyrra, að svo hefði ekki verið en ríkið fór þess á leit að yfirdeild MDE tæki málið fyrir.

Yfirdeildin skoðar alla jafna aðeins mál sem geta haft talsverð áhrif út á við og féllst hún á það. Málflutningur fór fram í byrjun febrúar á þessu ári og er dómur væntanlegur í dag, á sjálfan fullveldisdaginn.

Þegar Landsrétti var komið á fót ákvað þáverandi dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, að víkja frá mati dómnefndar um hæfni dómaraefna í fjórum tilfellum. Áður hafði Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að við þann gjörning hefðu meginreglur stjórnsýsluréttarins verið brotnar.

Umræddir fjórir dómarar tóku til starfa við réttinn en í málinu nú er deilt um það hvort seta eins þeirra í dóminum hafi brotið gegn rétti einstaklings til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi. Um var að ræða játningarmál vegna smávægilegra afbrota. MDE taldi að svo hefði verið.

Dómararnir fjórir sinntu ekki dómstörfum eftir að dómur MDE lá fyrir og voru dómarar settir til starfans. Nú er staðan sú að þrír af fjórum dómurum hafa hlotið skipun í embætti á nýjan leik og því aðeins einn þeirra, Jón Finnbjörnsson, sem ekki sinnir störfum við dóminn.