*

þriðjudagur, 1. desember 2020
Innlent 28. júlí 2020 13:31

Dómur Landsréttar bersýnilega rangur

Hæstiréttur veitti í gær áfrýjunarleyfi á grunni þess að vankantar hafi verið á dómi Landsréttar. Sjaldgæft er að heimildinni sé beitt.

Jóhann Óli Eiðsson
Höskuldur Marselíusarson

Hæstiréttur hefur veitt leyfi til áfrýjunar í máli sem varðar kaup félags á dekkjum af öðru félagi hér á landi. Leyfið er veitt á þeim grunni að ágallar hafi verið á dómi Landsréttar. Er þetta, eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst, í fyrsta sinn sem rétturinn veitir áfrýjunarleyfi á þeim grunni að málsmeðferð á lægri dómstigum hafi verið stórlega ábótavant eða að dómur Landsréttar hafi verið bersýnilega rangur að formi eða efni til.

Þræta málsins er á milli félaganna Dekkjavina ehf. og Bílastofunnar ehf. Eiganda síðarnefnda félagsins var einnig stefnt í málinu. Dómkrafa málsins, sem Dekkjavinir hafði uppi, hljóðaði upp á ríflega 40 milljónir króna auk samningsvaxta á tilteknu tímabili. Upphaflega var stefnt að því að dekkin yrðu staðgreidd en á endanum lánuðu Dekkjavinir 45 milljónir króna til kaupa á 6 þúsund dekkjum.

Í héraði var eigandi Bílastofunnar og félagið sjálft sýknað á þeim grunni að ekki hefði komist á samningur um kaupin á þeim dekkjum sem um var deilt og að greitt hefði verið fyrir þegar pöntuð dekk. Landsréttur taldi hins vegar að Dekkjavinir hefðu lánað Bílastofunni tiltekna fjárhæð en hún hefði ekki verið greidd til baka. Eigandi Bílastofunnar var því dæmdur til að greiða 6,5 milljónir króna auk samningsvaxta og Bílastofunni gert að greiða tæpar átta milljónir til Dekkjavina.

Í beiðni um áfrýjunarleyfi var byggt á því að dómur Landsréttar væri augljóslega rangur. Rétturinn hafi dæmt eiganda Bílastofunnar til að greiðslu 6,5 milljón króna án þess að slík krafa hafi verið höfð uppi eða að tilgreindur væri fjöldi þeirra dekkja sem krafan átti að ná til. Úrlausn Landsréttar hafi því farið á svig við málsforræðisreglu einkamálaréttarins enda málatilbúnaður Dekkjavina ekki byggt á þessu.

Hæstiréttur féllst á þessi rök og veitti leyfi til áfrýjunar á grunni síðasta málslið 1. mgr. 176. gr. laga um meðferð einkamála. Sá kveður á um að heimilt sé að veita leyfi til áfrýjunar „ef ástæða er til að ætla að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni til“.