Héraðsdómur Reykjavíkur þyngdi í dag dóm yfir Hreiðari Má Sigurðssyni í Marple-málinu eftir að málið var tekið fyrir í annað sinn. Hæstiréttur vísaði málinu í hérað vegna vanhæfis dómara. Bæði Mbl.is og Vísir greina frá.

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings, var dæmdur í 12 mánaða fangelsi en í dómnum sem var dæmdur ómerktur var hann dæmdur í sex mánaða fangelsi. Magnús Guðmundsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg var dæmdur í 18 mánaða fangelsi líkt og áður. Skúli Þorvaldsson fjárfestir var sömuleiðis dæmdur í sex mánaða fangelsi. Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri bankans var sýknuð.

Fjórmenningarnir voru ákærðir fyrir fjárdrátt, hlutdeild í fjárdrætti eða hylmingu yfir honum. Hreiðar Már og Guðný Arna voru aðallega ákærð fyrir milljarða króna auðgunarbrot og var Magnús ákærður fyrir hlutdeild í brotunum. Hins vegar var Skúli ákærður fyrir hylmingu, en um var að ræða millifærslur Kaupþings til félagsins Marple Holding í Lúxemborg fyrir samtals sex milljarða króna.

Hæstiréttur Íslands ómerkti dóm Héraðsdóm Reykjavíkur frá október 2015 í Marple-málinu svokallaða vegna vanhæfi sérhæfðs meðdómara í málinu, Ásgeirs Brynjars Torfason lektors við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Í kjölfarið þurfti að taka aðalmeðferð málsins á ný fyrir héraðsdómi. Verjendur töldu Ásgeir Brynjar vanhæfan í málinu vegna stjórnarsetu hans í félaginu Gagnsæi sem berst gegn spillingu og vegna ummæla sem hann lét falla í grein í Fréttablaðinu. Frá þessu hefur Viðskiptablaðið áður greint frá.

Sakfelldir í Héraðsdómi árið 2015

Árið 2015 sakfelldi Héraðsdómur Reykjavíkur þrjá af fjórum sakborningum í Marple málinu Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings í Lúxemborg og Skúli Þorvaldsson voru hver um sig dæmdir í sex mánaða fangelsi. Magnús Guðmundsson, fyrrum forstjóri Kaupþings, fékk þyngsta dóminn en hann var dæmdur til 18 mánaða fangelsisvistar.

Einnig voru gerð upptæk öll verðbréf, allur fjárfestingarsjóður og öll innstæða á hlaupareikningi, samtals 6.763.253 evrur, sem yfirvöld í Lúxemborg lögðu hald á undir rannsókn málsins inni á reikningi Marple Holding í Lúxemborg. Í málinu var ákært fyrir fjár­drátt, umboðssvik, pen­ingaþvætti og hylm­ingu.