Hæstiréttur staðfesti í dag dóm héraðsdóms í máli Kaupþings gegn Magnúsi Guðmundssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings í Lúxemborg, og ber Magnúsi því að greiða Kaupþingi 717 milljónir króna.

Staðfesti Hæstiréttur að sú aðgerð stjórnar Kaupþings þann 25. september 2008 að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna á lánum sem þeir höfðu fengið hjá bankanum til hlutabréfakaupa væri gjafagerningur og því riftanlegur.

Í tilviki Magnúsar hafði hann borið persónulega ábyrgð á 10% af þessum lánum áður en ábyrgðin var látin niður falla.

„Sú ákvörðun stjórnar stefnda 25. september 2008 að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna á lánum, sem þeim höfðu verið veitt til hlutabréfakaupa, var augljóslega byggð á þeirri forsendu að verðmæti hlutanna gæti rýrnað verulega sem aftur kynni að valda starfsmönnunum slíkum áhyggjum að þeir gætu ekki einbeitt sér sem skyldi að störfum sínum fyrir stefnda.

Þótt fallast megi á að ákvörðunin hafi að þessu leyti verið tekin með hagsmuni stefnda í huga var hún í því fólgin að aflétta fjárskuldbindingum af þeim starfsmönnum, sem tekið höfðu lánin, þar á meðal áfrýjanda. Samkvæmt því bjó einnig gjafatilgangur að baki ákvörðuninni þegar hún var tekin og mátti áfrýjanda vera það ljóst,“ segir í niðurstöðu Hæstaréttar.