Í dag tilkynnti Baugur Group að Don McCarthy, stjórnarformaður House of Fraser, hyggist kaupa um 3% hlutafjár í Baugi. Einnig mun hann þiggja sæti í stjórn Baugs sem meðstjórnandi og sitja í stjórn tveggja danskra fyrirtækja þess, Magasin du Nord og Illum. Þetta kemur fram í frétt fyrirtækisins.

Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs Group, segir, ?Við vinnum með mörgum fjárfestum og höfum haft samstarf við Don frá því snemma á árinu 2004. Okkar er sérstök ánægja að bjóða hann velkominn í hóp eigenda Baugs og í stjórn félagsins. Bæði samstæðan og fyrirtækin sem hún á eignarhlut í munu njóta góðs af hinni miklu reynslu hans og þekkingu af smásöluviðskiptum í Bretlandi.?

Don McCarthy segir, ?Baugur er einn hinn áhugaverðasti viðskiptaaðili í smásölu í Bretlandi. Langtímasýn félagsins og eindreginn vilji til að efla fyrirtækin sem það fjárfestir í gerir Baug að mjög heillandi fjárfestingu. Ég hlakka til þess að vinna með stjórninni og komast í enn nánara samstarf við stjórnendateymi Baugs Group.?

Þá tilkynnti stjórn Moss Bros í dag að Don McCarthy og Tony Bogod yrðu nýir stjórnarmenn frá Unity Investments, en upphaflega var tilkynnt þann 11. apríl 2007 að tveir aðilar frá Unity myndu taka sæti í stjórn Moss Bros. Unity Investments er íslenskt fjárfestingafélag sem stofnað var af Baugi Group, FL Group og Kevin Stanford. Það á kjölfestueignir í mörgum smásölufyrirtækjum í Bretlandi.

Philip Mountford, forstjóri Moss Bros segir, í tilkynningu: ?Stjórnin er hæstánægð með tilnefningu hinna nýju meðstjórnenda, Don McCarthy og Tony Bogod, og með staðfestingu Unity Investments á stuðningi sínum við starfsemi okkar. Þessar tilnefningar munu hjálpa okkur til að setja nýjan kraft í starfsemina og ná innri vexti og ytri þróun, sem er virðisauki fyrir alla hluthafa okkar.?