Fasteignajöfurinn og raunveruleikaþáttastjarnan Donald Trump hefur tilkynnt framboð sitt til forseta Bandaríkjanna fyrir hönd Repúblíkanaflokksins. Kynnti hann ákvörðun sína við stóra athöfn í Trump turninum í New York rétt í þessu. Gekk hann upp að ræðupúltinu með lagið "Keep on rockin' in the free world" með Neil Young í bakgrunni.

Trump þótti fara á kostum í ræðu sinni. Þar lét hann bandarísk stjórnvöld heyra það og sagði að þau létu Kína ráðskast með sig. Þá gagnrýndi hann baráttuna gegn hryðjuverkasamtökunum ISIS. Lét hann auk þess fjölda gullkorna falla.

Auk þess gaf Trump upp að eignir hans væru metnar á um níu milljarða dollara, en hann hefur grætt gríðarlegar fjárhæðir á fasteignaviðskiptum. Þá sló þátturinn „The Apprentice“ í gegn, þar sem Trump rak fólk hægri vinstri.

Bandarískir stjórnmálaskýrendur telja Trump ekki eiga raunhæfa möguleika á að verða næsti forseti Bandaríkjanna. Hann hefur verið duglegur að gagnrýna núverandi forseta, Barack Obama, og hefur notað Twitter til að deila ansi sterkum skoðunum sínum varðandi ýmis málefni.

Trump mun í kosningabaráttu sinni koma til með að leggja áherslu á hversu frábærum árangri hann hafi náð í viðskiptalífinu. Hann mun markaðssetja sig sem frumkvöðul sem er tilbúinn að rísa upp gegn kerfinu og berjast gegn samkeppnisaðilum á borð við Kína.

Trump hefur nokkur kjörtímabil daðrað við forsetaframboð en undanfarna mánuði hefur það þótt líklegra og líklegra að hann taki loksins af skarið. Nú hefur hann staðfest framboð sitt, en athyglisvert verður að sjá hvort hann nái að heilla bandarísku þjóðina.

Hann mun þurfa að berjast við frambjóðendur á borð við Ted Cruz og Jeb Bush í forvali Repúblíkanaflokksins.