Forkosningar Repúblikaflokksins í Nevada fóru fram í nótt en Donald Trump vann öruggan sigur. Hann hefur nú sigrað í þremur ríkjum í röð, en hann vann einnig í New Hampshire og Suður-Karolínu.

Trump fékk 42% atkvæðanna og vann öruggan sigur. Ted Cruz var í öðru sæti með 23,35%, en mjótt var á mununum milli hans og Marco Rubio sem lenti í þriðja sæti með 22,84% atkvæða. Ben Carson var í fjórða sæti, en hann fékk einungis 5,56% atkvæða.

Nevada er eitt af þeim ríkjum sem er ekki öruggt fyrir neinn flokk í forsetakosningum, og því mikilvægt fyrir forsetaframbjóðendur að hafa sterkt fylgi í ríkinu (e. swing state). Laugardaginn sl. voru forkosningar Demókrata í ríkinu, en Hillary Clinton vann þær forkosningar.