Boladagurinn hefur vakið athygli víða um heim. Það eru þeir Henry Birgir Gunnarsson íþróttafréttamaður og Daníel Rúnarsson ljósmyndari sem standa að deginum.

Í sem stystu máli fer Boladagurinn fram á Twitter. Hann gengur út á það að Íslendingar á Twitter reyna að vekja athygli á sér hjá þekktum stórstjörnum hvarvetna í heiminum. Markmiðið er svo að fá stjörnurnar til að svara. Dagurinn hefur farið fram nokkur ár í röð.

Það var Andri Eggertsson sem vakti athygli Trumps á sér með því að segja Trump að hann væri að horfa á sjónvarpsþáttinn Celebrity apprentice þar sem Trump er aðalstjarnan. Auðjöfurinn sjálfur svaraði með því að þakka fyrir sig.

Leikarinn William Shatner bregst líka við deginum og segir á Twittersíðu sinni að svo virðist vera sem Íslendingar eigi þeirra eigin útgáfu af GISHWHES. Sú útgáfa sé kölluð #boladagur og dagurinn sé í dag.

Þá svarar körfuboltamaðurinn Kurt Rambis, sem er núna aðstoðarþjálfari Los Angeles Lakers, þegar Einar Reynisson spyr hann hvort hann muni eftir hinum íslenska Pétri Guðmundssyni úr liði Lakers. Rambis svaraði um hæl og hélt það nú.